Spurning:
Ég er í smá krísu og vantar ráð. Ég hef stundað að því er ég tel ,,eðlilegt" og gott kynlíf með manninum mínum til fjölda ára. Ég hef alltaf talið að allt væri í lagi. Fyrir nokkru síðan sagði hann mér að hann hefði aldrei fengið fullnægingu. Hann fær sáðlát og hefur eðlilega kynþörf, en ekki fullnægingu. Ég skil ekki hvernig það er hægt? Er hægt að vinna bót á þessu máli, mér finnst ómögulegt að hann upplifi ekki þessa yndislegu tilfinningu. Við erum bæði um fertugt.
Kærar kveðjur, ein undrandi.
Svar:
Sæl, já það er hægt að fá sáðlát án fullnægingar þótt það sé frekar sjaldgæft. Þetta er sinn hvorn hluturinn en af því að þessi tvö fyrirbæri gerast nær eingöngu samtímist er ekki nema von að fólk verði hissa þegar það heyrir að hægt sé að fá sáðlát en ekki fullnægingu. Ekki er nægilega vitað hvað veldur og skortur á fullnægingu meðal karla er lítið sem ekkert rannsakað. Ýmsar kenningar eru á lofti um ástæður en áður en lengra er haldið (í að gera þetta að meiri vandamáli en það er) vil ég ráðleggja þér að ræða betur við manninn þinn og fá að heyra hvað honum finnst. Ég get skilið að þú sért hlessa og farir að velta fyrir þér hvort hann hafi ekki verið að missa af einhverju góðu allann tímann. En það er vel hægt að njóta samfara án fullnægingar, um það getur fjöldi fólks vitnað, aðallega konur.
Kveðja, Jóna.
Jóna Ingibjörg Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur B.S., M.S.Ed.