Síendurtekin meðgöngueitrun

Þeim mun oftar sem kona fær meðgöngueitrun er þeim mun meiri heilsufarsskaði? Eða skiptir tíðni meðgöngueitrunar engu máli?

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Vissulega hefur tíðni meðgöngueitrana einhver áhrif en það fer líka eftir alvarleika einkenna meðgöngueitrunar og ástandi móður fyrir meðgöngu. Meðgöngueitrun getur komið fram í öllum meðgöngum en konur eru í meiri hættu ef t.d. blóðþrýstingur er hár fyrir þungun, kona fékk meðgöngueitrun á fyrri meðgöngu, kona er með nýrnasjúkdóm, sykursýki eða sjálfsofnæmisjúkdóm eins og rauða úlfa (Lupus).

Meðgöngueitrun eða pre-eclampsia er sjúkdómur sem getur komið fram eftir 20. vikna meðgöngu og lýsir sér með hækkuðum blóðþrýstingi og eggjahvítu í þvagi. Oft finna konur engin einkenni og er því skimað fyrir sjúkdómnum í mæðraverndinni með því að mæla blóðþrýsting og rannsaka þvag. Einkenni geta haft alvarleg áhrif á hjarta- og æðakerfið, nýru og lifur en skv. rannsóknum að þá er það ekki algengt. Horfa þarf líka á heilsu konunnar fyrir þungun, hafi hún veiklun á þessum kerfum að þá getur hún verið lengur en aðrar konur að ná sér.

Gangi þér/ykkur vel

Thelma Kristjánsdóttir, hjúkrunarfræðingur