Skapsveiflur í byrjun blæðinga

Spurning:
Góðan daginn!

Þannig er að fyrstu daga blæðinga þarf ég að kljást við gífurlegar skapsveiflur. Ég verð rosalega pirruð, uppstökk og viðkvæm og hef allt á hornum mér. Þetta er auðvitað óskaplega þreytandi, ekki síst fyrir fjölskylduna og ég var að velta því fyrir mér hvort einhver lyf eða aðferðir við að minnka þessar skapsveiflur svona til að varðveita heimilisfriðinn þó ekki væri annað.

Kveðja.

Svar:

Sæl.

Orsök þessa kann að hafa margar skýringar. Þó svo þetta sé ætíð tengt fyrstu dögum blæðinga og svo búið, fellur það ekki í ramma PMT sem oftast lagast þegar blæðingar byrja. Því myndi ég ráðleggja þér að setjast niður með lækni og fara yfir stöðu mála. Það eru 3-4 leiðir sem hægt er að velja til að nálgast vandamálið. Settu niður fyrir þér á blað hvað þér finnst fara úrskeiðis, ekki treysta á gagnrýni annarra sem stundum er ekki óvilhöll. Lestu svo það sem skrifað er á hinum mörgu vefsíðum um PMS, PMT, premenstrual symtoms- tension, eða fyrirtíðarspennu og sjáðu hve mikið þú telur af þeim lýsingum sem þar er að finna tilheyri þér. Það ætti að vera hægt að bæta þér ástandið verulega.

Bestu kveðjur,
Arnar Hauksson dr. med.