Sprungur í munnviki

Spurning:

Ágæti viðtakandi.

Ég hef í nokkrar vikur verið mjög þurr í munnvikunum, þrátt fyrir að ég hef notað ótæpilega af alls kyns áburðum, þá kemur þessi þurrkur alltaf aftur.

Mér var sagt að þetta gæti verið einkenni þess að mig vantaði eitthvað í fæðuna, sem sé einhvers konar hörguleinkenni, getur það verið og hvað vantar þá?

Getur þetta verið einkenni þess að fá of mikið af einhverjum vítamínum sem væri e.t.v. nær en hitt að mig vantaði eitthvað af slíku?

Með kveðju og fyrirfram þökk.

Svar:

Þakka fyrirspurnina.

Gamlar sagnir segja að þurrk í munnvikum megi rekja til skorts á B12 vítamíni. Slíkt á hinsvegar ekki við rök að styðjast og er ekki talið tengjast næringaástandi. Við þurrk í munnvikum gott að drekka nóg af vökva, reyna að hindra snöggar hitabreytingar á varirnar og varast að sleikja munnvikin mikið. Notaðu feitan varasalva.

Það sem getur gerst þegar sprungur í munnvikum verða langvarandi er að sveppir sem venjulega eru til staðar í munni án þess valda ekki einkennum ná að taka sér bólfestu í þessum sprungum og viðhalda þeim. Hægt er að kaupa sveppakrem í lyfjaverslunum t.d. daktacort og bera í munnvikin tvisvar á dag í nokkara daga. Notið varasalva samhliða þeirri meðferð og forðist mikla neyslu sykurs.

Með von um að þér gangi vel.

Kveðja
Erla Sveinsdóttir, læknir.