Spurning:
Sæl Dagný.
Ég er með eina 3 mán. gamla stelpu. Þegar hún fæddist var hún 2950 gr og 48 cm í dag er hún 4980 gr og 60 cm, er það í lagi?
Einnig langar mig til að vita í sambandi við brjóstagjöf, eins og staðan er í dag þá þarf ég að gefa henni bæði brjóstin því hún tæmir annað og byrjar vel á hinu, er það merki um að ég sé of mjólkurlítil fyrir hana?
Svo eru það kvöldin, hún er frekar lengi að drekka eða um 30 mín. en á kvöldin þá getur hún legið á brjóstinu frá kl.19.30 til að verða 21.00 er það eðlilegt eða þarf ég að fara að gefa henni pela með á kvöldin? En þá fer hún iðulega að sofa og vaknar um 6-7 á morgnana.
Núna síðustu kvöld hefur hún verið að gera þetta nema hvað að hún vaknar um kl. 21.00 og neitar að fara að sofa aftur og grætur bara og grætur, getur verið að hún sé ekki að fá nóg hjá mér á kvöldin? Yfirhöfuð er hún mjög vær og góð og sefur vel á daginn og morgnana og einnig hefur hún gert það á kvöldin fyrr en núna.
Ég er orðin ráðalaus hvað skal gera og hvort ég eigi að gefa henni þurrmjólk með?
Svar:
Sæl.
Stúlkan þín virðist hafa verið að þyngjast innan eðlilegra marka, þó e.t.v. í minna lagi. Núna gæti hún verið að taka vaxtarsprett (það passar líka við aldurinn) og þá þarf hún að taka brjóstið oftar og lengur í einu. Það er ekkert óalgengt að börn drekki á 2-3 tíma fresti allan daginn og taki sér svo 4-6 tíma hvíld á nóttinni. Þannig fá flest börn næga mjólk og stjórna sjálf hversu mikla mjólk móðir þeirra framleiðir.
Lofaðu stúlkunni þinni að taka brjóstið eins oft og hún vill og eins lengi og hún vill. Ef hún vaknar aftur kl. 21 gæti það verið vegna þess að hún er svöng og þá skaltu bara lofa henni að sjúga brjóst svo lengi sem hún vill. Það kemur alltaf einhver mjólk og meðan hún sýgur annað brjóstið myndast mjólk í hinu þannig að þér er óhætt að gefa henni brjóstin til skiptis, þess vegna allt kvöldið. Eftir því sem meira er sogið, þeim mun hraðar myndast mjólkin. Vertu alveg róleg og njóttu þess bara að kúra með þinni stúlku og gefa brjóst og þá eykst mjólkin á nokkrum dögum.
Ef þú ferð hins vegar að gefa henni pela með er hætt við að mjólkurmyndunin minnki, frekar en að aukast til að mæta þörfum barnsins. Bíddu því aðeins með pelann og hafðu trú á því að líkamin þinn haldi áfram að næra barnið þitt. Láttu vigta hana eftir ca. 2 vikur og fáðu ráðgjöf hjá hjúkrunarfræðingnum í ungbarnaverndinni ef hún virðist ekki þyngjast nóg þrátt fyrir mikla og góða brjóstagjöf.
Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir