Spurning:
Ég tognaði á ökkla fyrir tveimur árum og ég er alltaf að misstíga mig og þori varla lengur að fara út að skokka. Eru einhverjar æfingar sem ég get gert, því nú er ég dugleg að nota teygjubindi, en það er bara einhvern veginn eins og það hafi ekkert að segja.
Svar:
Slæmar eða endurteknar ökklatognanir geta leitt til þess að ökklaliðurinn verður óstöðugur, þ.e. hann gefur eftir og fólki er hætt við að misstíga sig aftur og aftur eins og þú lýsir hér að ofan. Til þess að draga úr þessu er hægt að gera ýmsar jafnvægis og styrkjandi æfingar sem að geta dregið úr óstöðugleikanum.
Hér er ágætur en þó ekki tæmandi listi:
1) Standa á öðrum fæti með opin augu, reyna að halda jafnvægi sem lengst.
2) Standa á öðrum fæti með lokuð augu, reyna að halda jafnvægi sem lengst.
3) Standa á öðrum fæti með opin augu, henda bolta í vegg og reyna að halda jafnvægi sem lengst.
4) Standa í tröppu með hælana útaf, lyfta sér upp á tær 10-30 sinnum eftir getu.
5) Standa á öðrum fæti í tröppu með hælinn útaf, lyfta sér upp á tær 10-30 sinnum eftir getu.
6) Ganga á hælunum.
7) Ganga á tánum.
Eitt besta hjálpartæki til stöðugleikaþjálfunar ökklaliðar er svokallað jafnvægisbretti, það er einskonar diskur með kúlu neðan á sem vaggar þegar stigið er á það. Það fæst í fyrirtækjum sem selja vörur til endurhæfingar og eru ekki mjög dýr að ég tel. Ef æfingarnar skila ekki tilætluðum árangri gæti verið gott fyrir þig að fá þér slíkt.
Það eru einnig til margar gerðir af spelkum og hlífum fyrir ökkla sem geta hugsanlega betur komið í veg fyrir að þú misstígir þig en teygjubindið. Ef að þessi ráð duga þér ekki ráðlegg ég þér að leita til læknis og síðan sjúkraþjálfara til að fá nákvæma greiningu á hvert vandamálið er.
Högni Friðriksson, sjúkraþjálfari