Sushi og ostur á meðgöngu?

Spurning:

Heil og sæl.

Ég er komin 9 vikur á leið á fyrstu meðgöngu og líður prýðilega í alla staði. Ég hef ekki tekið nein heljastökk í breytingum á mataræði, borða bara hollt og reglulega, og brá því nokkuð þegar ég var sterklega vöruð við tveim fæðutegundum sem ég borða mikið en það er sushi og mygluostar. Vel meinandi vinir halda fram að þetta sé fóstrinu stórhættulegt. Er það rétt?

Með kveðju.

Svar:

Sæl.

Það er nokkuð til í því sem vinirnir tala um. Sushi er búið til úr hráum fiski en í hráum dýraafurðum geta leynst sníkjudýr og sýklar sem valda fósturskaða. Eins geta leynst sýklar sem nefnast Listería í ógerilsneyddum ostum. Íslenskir ostar eru gerilsneyddir en ef þeir eru orðnir gamlir geta farið að vaxa í þeim sýklar. Því eru barnshafandi konur varaðar við að borða osta sem „batna”" við geymslu. Venjulegur brauðostur á hins vegar að vera í góðu lagi.

Ekki velta þér um of upp úr þessu – íslenskar afurðir eru í alflestum tilvikum hreinar og ómengaðar. Hættu bara að borða þetta – þá þartu ekki að vera með áhyggjur. Til nánari glöggvunar getur þú lesið um mataræði á meðgöngu á vef Doktor.is.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir