Svefn á meðgöngu

Spurning:

Kæra Dagný.

Er óeðlilegt að sofa mikið fyrstu 3-4 mánuði meðgöngunnar. Þá meina ég að sofa 9 tíma yfir nótt og vakna oftar en ekki þreytt og svo að vinnudegi loknum get ég mjög auðveldlega sofið í 1 til 2 1/2 tíma og geri það oftast. Þess á milli er ég mjög oft þreytt eða syfjuð og orkulaus. Þetta er önnur meðgangan mín. Ég minnist þess ekki að hafa sofið svona mikið á fyrri meðgöngu þrátt fyrir að vera svipuð á mig líkamlega komin núna eins og þá. Mér finnst þetta dálítið óeðlilegt af manneskju að nálgast þrítugt.

Fyrirfram þakkir.

Svar:

Sæl.

Nei það er ekkert óeðlilegt að þurfa mikinn svefn á meðgöngu – þá sérstaklega í byrjun meðan líkaminn er að aðlagast þunguninni. Möguleg ástæða þess að þér finnst þú þreyttari nú en í fyrstu meðgöngunni er líklega vegna þess að það er meira að gera hjá þér núna heldur en þá og þú hefur ekki endilega tækifæri til að hvíla þig í hvert sinn sem þú finnur fyrir þreytu eða syfju. Athugaðu einnig að næringarástand hefur mikið að segja þannig að þú þarft að gæta þess að fá næga orku úr fæðunni. Það fer heilmikil orka í að búa til nýjan einstakling þannig að ef þú hefur tækifæri til að nærast, hvílast og sofa meira en endranær skaltu endilega gera það.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir