Spurning:
Ég er með þrálátt vandamál í sambandi við líkamslykt. Ég er að eyðileggja nýjar flíkur á ekki lengri tíma en 2 dögum vegna hennar. Hún „festist“ í fötunum. Ég þríf mig oft á dag og púðra undir hendurnar en ekkert virðist koma að gagni. Hvað á ég að gera? Þetta er algjört
helvíti!
Svar:
Það er skiljanlegt að þú sért orðin þreytt á þessu vandamáli. Það er óhjákvæmilegt að við svitnum, sviti er eitt mikilvægasta hitastjórnunartæki líkamans og auk þess losnum við úrgang í gegnum svitann. Það er mjög misjafnt eftir einstaklingum hversu mikið þeir svitna og hver samsetning svitans er, sem aftur hefur áhrif á lyktina. Það kemur ekki fram í fyrirspurn þinni hvort þú ert yfir kjörþyngd, en þeir sem eru yfir kjörþyngd svitna meira en einstaklingar sem eru í kjörþyngd. Ef svo er í þínu tilfelli er það besta sem þú getur gert að léttast til að minnka svitamyndunina. Annars ráðlegg ég þér að nota góðan svitalyktareyði, leitaðu eftir svitalyktareyðum sem innihalda aluminium sölt og prófaðu þig áfram þar til þú finnur einhvern sem hentar þér vel. Sama gildir um þvottaefni, prófaðu að nota blettaeyði á föt þín þar sem þú svitnar mest, mikilvægt er svo að þvo hann vandlega úr til að forðast ertingu á húðina. Forðastu þröngan fatnað og vertu í fötum úr náttúrlegum efnum, eins og t.d. bómull, þau anda betur en gerviefni og svitalykt festist síður í þeim. Prófaðu að líma nærbuxnainnlegg inn í peysur og boli undir höndum, þá fer svitinn í innleggið en ekki í fatnaðinn. Kaffi, te og aðrir drykkir sem innihalda koffein auka á svitamyndun líkamans og því rétt að forðast þá og drekka mikið vatn. Ég vona að eitthvað af þessum ráðleggingum komi þér til hjálpar, en ég er viss um að á endanum finnst lausn.
Gangi þér vel,
Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir