Sykursýki 2 og bjórdrykkja

Spurning:

Má maður með sykursýki af tegund 2 drekka bjór?

Svar:

Þeir sjúklingar sem haldnir eru sykursýki af tegund 2 eru með það sem kallast skert sykurþol, þ.e. brisið framleiðir ekki nægilega mikið insúlín til að frumurnar geti nýtt sér sykur úr fæðunni og blóðsykurinn hækkar því. Það er mjög mismunandi milli þessara sjúklinga hversu langt genginn sjúkdómurinn er og hefur stig sjúkdómsins áhrif á það hvort viðkomandi er óhætt að fá sér bjór eða ekki. Nauðsynlegt er fyrir sjúklinga með sykursýki að hafa samráð við sinn lækni og fá álit hans á því hvort sé óhætt að fá sér bjór, ef svo er þá er mikilvægt að hafa magnið í hófi, 1-2 bjórar á dag og velja svokallaðan léttan bjór, þ.e. bjór sem inniheldur minna magn af alkóhóli og sykri.

Mikilvægt er fyrir sjúklinga með sykursýki að skilja hverskonar áhrif áfengi getur haft á sjúkdóminn áður en áfengis er neytt. Áfengi er ekki brotið niður í meltingarveginum heldur berst það beint út í blóðrásina og er það lifrin sem sér um að brjóta það niður. Lifrin getur einungis brotið niður ákveðið magn í einu og ef framboð á áfengi er meira en niðurbrotið koma áfengisáhrif fram.

Fyrir sjúkinga sem eru á lyfjameðferð við sykursýki eykur áfengi hættu á blóðsykursfalli. Undir venjulegum kringumstæðum þá bregst lifrin við blóðsykursfalli með því að losa kolvetni úr geymslum sínum og senda þau í formi sykurs í blóðrásina og koma þannig í veg fyrir blóðsykursfall. Ef áfengi er hinsvegar til staðar, þá skynjar líkaminn það sem eitur og lifrin lítur á það sem forgangsverkefni að losa líkamann við áfengið og losar því ekki sykrur á meðan. Ef áfengi er drukkið meðan á líkamlegu erfiði stendur, eykst hættan á blóðsykursfalli enn frekar, því vöðvarnir nota sykur sem orku og þegar þeir hafa klárað þær birgðir sem eru til staðar í vöðvunum sjálfum, sem eru frekar litlar, taka þeir sykur úr blóðinu og nota sem orku. Því er mjög mikilvægt fyrir þá sem haldnir eru sykursýki og langar að fá sér bjór, að drekka aldrei á fastandi maga, heldur drekka hann með mat eða eftir mat. Einnig er mikilvægt að prófa blóðsykur örar en venjulega er gert og gott að fá sér aukabita áður en farið er að sofa til að koma í veg fyrir að blóðsykur falli yfir nóttina.

Þeir sjúklingar sem komnir eru með einkenni fylgikvilla sjúkdómsins, s.s. taugaskaða, breytingar í augnbotnum, hækkaðan blóðþrýsting eða háa blóðfitu, ættu alls ekki að neyta áfengis í neinu magni því það gerir þessi einkenni verri og flýtir fyrir framþróun þeirra.

Ég vona að þetta svari spurningu þinni.

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir.