Sýrumyndun í munni.

Hvað veldur sýrumyndun í munni, finnst eins og ég hafi drukkið mysu eða eitthvað sem líkist sýru, þur í munni og eins og sýra á vörunum þegar ég sleiki þær, hvað getur þetta verið. Með fyrirfram þökk.

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Ýmsar ástæður geta verið fyrir sýrubragði í munni. Þetta er nokkuð algengt og ætti ekki að vera ástæða fyrir að hafa miklar áhyggjur af.
Það fer mjög mikið eftir hvað einstaklingur hefur verið að borða áður, hvort vökvainntaka hefur verið lítil, vítamín og steinefna taka getur valdið þessu, bakflæði, sýking, léleg tannheilsa, ekki tannburstað reglulega, aukaverkun af lyfjum, streita og kvíði, eftir að hafa borðað furuhnetur, sveppasýking í munni og margt fleira.

Heimaráð við þessu ef einkennin eru bara tímabundin:

  • Tannbursta reglulega, nota tannþráð og munnskol
  • Tyggja tyggjó – það eykur líka munnvatnsframleiðsluna
  • Fá meðferð við bakflæði ef það er til staðar
  • Drekka nóg af vökva
  • Minnka sykurneyslu og gosdrykkjaneyslu (ef til staðar)
  • Einnig er hægt að hreinsa munninn með vatni blönduðu með matarsóda.

Ef þetta heldur áfram þá ráðlegg ég þér að leita til læknis.

Gangi þér vel,

Sigrún Eva Sigurjónsdóttir, hjúkrunarfræðingur