Fyrirspurn:
Afsakið að ég sendi þér þennan póst og ég veit að það er örugglega illa séð, en ég þarf því miður að fá ráð/hjálp fljótt.
Það vill svo skemmtilega til að það er endajaxl að koma upp hjá mér og hann er kominn svona hálfa leiðina. Um jólin þá var svokölluð skinnpjatla föst ofan á tönnunni en svo losnaði hún og hefur hun bara leikið lausum hala síðan. Síðastliðinn mánudag þá vildi svo leiðinlega til að þessi "skinnpjatla" bólgnaði alveg rosalega upp og var sársaukafull viðkomu, og svo núna þá er eitthvað hvítt sem er fast undir henni og endinn á henni (þ.e.a.s hlutinn sem er ekki fastur við holdið) litur út eins og hann sé að deyja….ég veit ekkert hvað er að gerast og kannski þið vitið hvert ég get leitað eftir hjálp.
Svo er ég núna búinn að vera veikur í 5 daga með flensuna, og er búinn að fá alveg þessi hrikalegu munnangur sem er örugglega svona 6-7 talsins víðsvegar um munninn og á ég mjööög erfitt með að borða og kyngja, er þetta eðlilegt? Og er ekki hægt að láta brenna fyrir þetta?
Kveðja,
19.ára unglingur sem leitar örþrifaráða.
Takk fyrir og endilega vertu svo væn að svara þessu.
Svar:
Sæll og takk fyrir fyrirspurnina
Í fyrsta lagi skaltu leita til tannslæknis vegna nefndra breytinga í tannholdi, hann tekur afstöðu til þess hvað skal gera. Í öðru lagi er aldrei brennt fyrir munnangur af þeim toga sem þú nefnir, í flensu er ónæmiskerfið veiklað og gefast þá frekar tækifæri fyrir munnangur og frunsur t.d. að ná sér á strik. Almennt gengur þetta niður af sjálfu sér, stundum í slæmum tilfellum þarfnast einstaklingurinn sýklalyfja það er þá metið við skoðun hjá lækni, t.d. heimilislækni.
Með bestu kveðju,
Teitur Guðmundsson, MD