Þvagfærasýking – ecoli sýking

Góðan dag
Ég er á 56. aldursári og hef farið í gegn um tíðarhvörf. Meðan ég var ung var ég mjög útsett fyrir þvagfærasýkingar. Árin sem tíðahvörfin gengu yfir (4-5 ár um fimmtugt) var ég án sýkinga. Ég fékk sýkingu í desember s.l. sem var meðhöndluð með Selexid sýklalyfi. Á 4.-5,degi var ég enn með einkenni (orðin ónæm) svo ég fór á heilsugæslu og fékk Nifurantin í staðinn. Ég fékk aftur þvagfærasýkingu núna í febrúar, sem var enn svæsnari en sú fyrri þ.e. fékk verki við nýru sem ég hef ekki fengið áður (aldrei). Hef fengið upplýsingar að E-coli veiran valdi sýkingum hjá mér núna. Er ástæða til að fá nánari rannsókn hjá þvagfæralækni?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Þrálátar þvagfærasýkingar eru þó nokkuð algengar hjá konum. Það sem menn hafa áhyggjur af í því sambandi er fyrir og fremst möguleg áhrif á nýrun vegna þess að ef sýkingin veldur skaða á nýranum getur myndast ör sem hverfur ekki og smám saman getur orðið það mikil skemmd á nýranu að starfssemin skerðist.

Það eru til ýmis húsráð og náttúruleg lyf sem talin eru að gagnist til þess að fyrirbyggja sýkingarnar eins og trönuberjasafi eða hylki, drekka vel af vatni og forðast freyðibað svo eitthvða sé nefnt en þú getur lesið þér betur til með því að smella á tengilinn hér

Þú skalt endilega ræða við þinn lækni um hvað þú getur gert til þess að fyrirbyggja sýkinguna og hvort ástæða sé til þess að ráðfæra sig frekar við þvagfærasérfræðing.

Gangi þér vel

Guðrún Gyða Hauksdóttir