Tíð þvaglát og önnur óþægindi?

Spurning:
Komið þið sæl.
Þannig er mál með vexti að síðustu fjóra mánuði hef ég þurft endalaust að vera að pissa, 6-7 sinnum á nóttuni og allt upp í 15 sinnum yfir daginn. Ég er ekki að drekka neitt meira en venjulega og ekki nóg með það, heldur er svo mikill þrýstingur á blöðrunna að stundum er eins og eitthvað sé að slitna og svo er mikill verkur yfir þvert bakið þegar mér er mál að pissa. Og svona viku fyrir blæðingar fæ ég kláða í allan líkaman, aðallega í fæturnar og þvílíkan pirring. Svo blæs ég út svona viku til tveim vikum fyrir blæðingar og er eins og ég sé kominn 6 mánuði á leið. Hvað er í gangi? Er þetta eðlilegt? Ég er búin að ganga með 3 börn og er ekki á pillunni og er ekki ófrísk, ég er 170 cm á hæð og 67 kg. Með fyrir fram þökk.

Svar:

Sæl, svar mitt er þannig:Ýmislegt getur valdið slíkum einkennum og má þar nefna sýkingar og bólgur í þvagfærum og þá sérstaklega þvagblöðru sem og sértækari sjúkdómar sem unnt er greina með viðeigandi læknisrannsókn eða skoðun. Einkennin flokkast undir það sem kallast blöðruröskun, en það er safnheiti yfir ýmis einkenni frá þvagblöðru, óháð því hvað er raunverulega á ferðinni í fyrstu. Stundum er um að ræða svokallaða ofsamigu eða sjúklega þvagaukningu (sjaldgæft). Þú hefur óeðlilega tíð þvaglát að nóttu sem degi miðað við lýsinguna. Mikilvægt er að skrá þvagmagnið hverju sinni þegar þú pissar (nota desílítra-mál eða álíka) sem og hversu mikið þú drekkur af vökva í 2-3 sólarhringa. Síðan er rétt að þú pantir tíma hjá lækni sem í fyrstu tekur þvagsýni og metur ástandið út frá líkamsskoðun, sögu og þvaglátaskrá sem þú getur þá verið búin að skrá áður. Frekari rannsóknir, meðferð og ráðleggingar ráðast af þessari fyrstu skoðun. Bestu kveðjur,Valur Þór Marteinsson