Um hjartalokuleka og kalk í hjartalokum

Hvað getur þú sagt mér um hjartalokuleka og kalk í hjartalokum? Eru einhver áhrifarík lyf til við þessum kvillum? Hvers konar lyf þá helst? Eru þessir hjartakvillar jafn alvarlegir og kransæðastífla? Nokkuð sem ber að taka alvarlega?

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Þrengsli eða lekar geta orðið í öllum fjórum lokum hjartans en algengustu lokusjúkdómar í fullorðnum eru þrengsli eða leki í ósæðarlokunni. Einnig er algengt að lokan á milli vinstri hjartahólfanna (míturlokan) verði óþétt. Ef leki verður í ósæðar- eða míturloku getur það með tímanum leitt til skertrar starfshæfni hjartans og hjartabilunar með vaxandi mæði. Algengustu einkenni þrengsla í ósæðarlokunni eru brjóstverkir, yfirlið eða mæði. Þegar slík einkenni hafa komið til sögunnar þarf oftast að framkvæma hjartaaðgerð þar sem skipt er um loku og þurfa þá margir sjúklinganna að vera á blóðþynningarlyfjum ævilangt. Það eru engin lyf ennþá sem vinna á kölkunum í ósæðarlokunnni og lyf bara gefin til að vinna á þeim einkennum sem kölkunin getur valdið. Þrengingar í ósæðarloku eru algengar hjá eldra fólki og ef ómeðhöndlað að þá getur það leitt til dauða. Sjúkdóma tengda hjartanum ber alltaf að taka alvarlega og í flestum tilfellum er hægt að meðhöndla með lyfjum eða skurðaðgerðum. Læt fylgja með áhugaverðar greinar um þessi málefni.

https://www.mayoclinic.org/diseases-conditions/aortic-stenosis/symptoms-causes/syc-20353139

https://www.healthline.com/health/aortic-stenosis

með kveðju,

Thelma Kristjánsdóttir

Hjúkrunarfræðingur.