Undirbúningur fyrir flug á meðgöngu

Spurning:

Sælar Dagný.

Við hjónin erum að fara til spánar í byrjun júlí, ég verð þá komin 28-29 vikur á leið. Hvað ætti ég að varast og hvað er best fyrir mig að gera svo að mér og barni líði sem best.

Með fyrirfram þökk.

Svar:

Sæl.

Það sem þú skalt gera fyrst er að huga að fluginu til Spánar. Á meðgöngu er aukin hætta á blóðtappamyndun svo ráðlegt er að taka 1 barnamagnýl (125mg) daginn áður en þú ferð af stað hvora leið. Svo skaltu gæta þess að drekka mjög mikið af vatni í fluginu og standa reglulega upp og ganga um. Vertu í þægilegum fatnaði sem þrengir hvergi að þér og góðum skóm sem þola að þú tútnir soldið út. Búðu þig undir að bjúgur aukist dálítið hjá þér í fluginu. Þegar þú kemur út í sólina er mikilvægt að þú ofhitnir ekki, drekkir mikið af vatni og notir mikið af sólarvörn því húðin er viðkvæmari fyrir bruna á meðgöngu. Liggðu ekki lengi í sólbaði án þess að kæla þig og hafðu eitthvað ljóst yfir bumbunni til að ofhitna ekki. Hvað varðar mataræði þá er ráðlegt að sleppa ostum og sjávarfangi, gæta þess að allt kjöt sé vel steikt og skola allt grænmeti og ávexti áður en þeirra er neytt. Gættu þess líka að fá næga hvíld í ferðinni – leggðu þig um leið og spánverjarnir (2-3klst. eftir hádegið). Svo óska ég ykkur bara góðrar ferðar.

Dagný Zoega, ljósmóðir