Ungabarn – þyngist og þyngist?

Spurning:
Hæ og takk fyrir frábæra síðu.
Ég var að skoða grein um vöxt ungbarna og þar er talað um að eðlilegt sé að börn þyngjist um 200 gr. á viku en litli guttinn minn er að þyngjast miklu meira. Hann hefur þyngst frá 400 gr-650 gr á viku. Hann fæddist 4260 gr og var orðinn 4290 gr. eftir 4 daga. Í 9 vikna skoðuninni var hann orðinn 7700 gr. Sem sagt algjör bolti;) Ég var ekkert að hafa áhyggjur af þessu fyrr en ég las þessa grein. Er þetta eitthvað sem ég þarf að stressa mig yfir? Já og hann er eingöngu á brjósti.
Með fyrirfram þökk

Svar:
Haltu áfram að vera áhyggjulaus varðandi þyngdina. Sé stráksi eingöngu á brjósti er lítil hætta á að hann verði of feitur þegar fram líða stundir. ,,Boltabörnin" hægja nefnilega á þyngdaraukningunni eða standa jafnvel í stað í þyngd þegar þau fara að hreyfa sig um og borða fasta fæðu. Svo vertu bara óstressuð og glöð með stóra strákinn þinn.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir