Spurning:
Sæl.
Ég hef tvisvar mælst með lágt kortisol í blóði, ég á að fara aftur í mælingu eftir mánuð. Ég hef notað Dermovat 0,%5 krem á exem sem ég fæ stundum á fæturna. Mér skilst að það geti haft áhrif á rétta mælingu á kortisoli. Það sem mig langar að vita er hvað kortisol er? Hvaða hlutverki gegnir það? Hvað getur valdið lækkun á kortisoli og hvað er til ráða ef eitthvað er að? Með fyrirfram þökk.
Svar:
Kortisól er framleitt í nýrnahettum líkamans og er oft kallað stresshormón því framleiðsla þess eykst við álag og eru dægursveiflur þess í blóði miklar. Kortisol hefur margvísleg áhrif í líkamanum m.a við blóðþrýstingsstjórnun og efnaskipti. Lyf sem innihalda stera geta þannig haft áhrif á mælingar í blóði en krem líkt og þú notar ætti ekki að hafa áhrif nema ef notað í langan tíma í miklu magni á stór húðsvæði. Skert starfsemi nýrnahettna með lækkuðu kortisoli leiðir til einkenna svo sem slappleika, þreytu, lystarleysis, þyngdartaps, svima, lágs blóðþrýstings, húðbreytinga o.fl.
Ef vanstarfsemi á nýrnahettum er til staðar er mögulegt að taka inn kortisol á töfluformi.
Frekari upplýsingar þarft þú að fá hjá þínum lækni.
Kveðja,
Hjúkrunarfræðingur Doktor.is