Upplýsingar um mígrenilyf

Spurning:

Mig langar að vita hvort þið getið hjálpað mér.
Getur lyfið Remeron aukið mígreniköst og gert þau tíðari hjá sjúklingi með slæmt mígreni?

Er hægt að fá lyfjakort varðandi lyfið Imigram í sprautuformi, þar sem það er svo dýrt og er oft það eina sem slær á köstin?

Getur lyfið Rivotril haft einhver áhrif?

Með fyrirfram þökk, og góðan vef.

Svar:

Remeron inniheldur efnið mirtazapín sem er alfa-2 blokk með miðlæg presínaptísk áhrif sem auka noradrenvirk og serótónínvirk efni í miðtaugakerfinu. Ég veit ekki til þess að það geti aukið tíðni mígrenikasta eða gert þau verri. En þar sem engir tveir einstaklingar eru eins er ekki hægt að útiloka að lyfið valdi aukaverkun hjá þér sem aðrir finna ekki. Líkurnar á því eru hins vegar sáralitlar.

Rivotril inniheldur efnið klónazepam sem er benzódíazepínafbrigði. Það er sama með þetta lyf að það á ekki að auka tíðn mígrenikasta.

Varðandi lyfjakort fyrir Imigran stungulyf þá er til reglugerð sem heitir: Reglugerð nr. 948/2000 um greiðslur almannatrygginga í lyfjakostnaði. Í henni er fjallað um lyfjakort/lyfjaskírteini í 10. grein en hún er hér að aftan.

10. gr.
Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að gefa út lyfjaskírteini í samræmi við starfsreglur sem stofnunin setur sér:

1. Þegar sjúklingi er brýn nauðsyn að nota um lengri tíma lyf sem almannatryggingar greiða ekki eða aðeins að hluta. Er þá heimilt að hækka greiðslumerkingu um einn flokk, sbr. 4. -7. grein. Greiðsla Tryggingastofnunar miðast ávallt við viðmiðunarverð, sé það til staðar, annars við smásöluverð eða greiðsluþátttökuverð, sbr. 3. gr.

2. Þegar sjúklingi er brýn nauðsyn að nota að staðaldri lyf sem almannatryggingar greiða ekki eða aðeins að hluta. Er þá heimilt að undanþiggja sjúkling greiðslu tiltekinna lyfja eða lyfjaflokka miðað við viðmiðunarverð, sé það til staðar annars smásöluverð eða greiðsluþátttökuverð, sbr. 3. gr. Sem dæmi má nefna sjúklinga með flogaveiki, Parkinsonsveiki, lokastigs nýrnabilun, krabbamein, alvarlega áunna eða meðfædda truflun á kyn- og innkirtlastarfsemi eða sambærilega sjúkdóma.

Þannig að læknir þarf að meta þitt ástand og sækja um kort fyrir þig og svo er það Tryggingastofnun ríkisins (TR) sem tekur ákvörðun um hvort þú færð það. Þess má geta í lokin að TR tekur þátt í kostnaði vegna Imigrans, það er svokallað E-merkt lyf sem merkir það fyrir lyf sem kostar t.d. 8.500 kr greiðir þú aðeins 4.500 kr en 1.250 kr ef þú ert elli- eða örorkulífeyrisþegi.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur