Upplýsingar um Osteochondritis dissicans?

Spurning:
12 ára gamall sonur minn sem stundar mikið fótbolta og er duglegur í flest öllum íþróttum, greindist með ,,osteochondritis dissicans" í vinstra hné. Það sem mig langar að vita er hreinlega allt sem þið getið sagt mér um þennan sjúkdóm. Ég prófaði að leita á alþjóðanetinu, en ræð bara ekki við að skilja enskuna nógu vel til að það komi að gagni. Þess vegna leita ég til ykkar með von um ýtarlega lýsingu á þessum sjúkdóm. Fyrirfram þakkir

Svar:
Osteochondritis dissicans er brjósk/beinsjúkdómur sem er ekki óalgengur hjá börnum og unglingum. Sjúkdómurinn er algengastur í hnjám en getur komið í aðra liði eins og ökkla og olnboga. Getur reyndar komið í flesta liði líkamans. Algengast er að sjúkdómurinn sitji á lærleggsendanum innanverðum en getur komið á aðra staði lærleggsenda. Sjúkdómurinn orsakast sennilega af skemmd í vefnum undir brjóskinu af völdum blóðrásartruflunar en þó geta áverkar verið samverkandi þáttur. Á röntgenmyndum sést þetta sem eins og úráta í brjóskinu og getur litið illa út á myndum þó brjóskið yfir skemmdinni sé heillegt.  Á sneiðmyndum og segulómun er hægt að fá nánari upplýsingar um eðli skemmdarinnar. Það sem skiptir mestu máli uppá horfur er aldur einstaklingsins og stærð skemmdar. Eftir því sem einstaklingurinn er yngri þeim mun betri horfur þar sem viðgerðarhæfni er mun betri. Sjúkdómurinn getur verið einkennalaus en algengustu einkenni eru verkir og að einstaklingurinn upplifir að hnéð hálf læsist (festist).

 

Oftast gegnur sjúkdómurinn yfir án sérstakra aðgerða og þessir einstaklingar geta lifað eðlilegu lífi mtt daglegs lífs og íþrótta. Stundum losna brjóskbeinbitarnir og þá getur þurft að festa þá aftur eða fjarlægja ef þeir losna alveg og verða að liðmúsum. Það er eðlilegt að bæklunarskurðlæknir meti alla þessa einstaklinga þannig að hægt sé að fylgjast með þessum sjúkdómi og grípa inn í með aðgerðum ef þurfa þykir.

Bestu kveðjur,

Sveinbjörn Brandsson, bæklunarskurðlæknir