Spurning:
Góðan daginn!
Mig langar að gera fyrirspurn varðandi verk, sem ég hef verið með í vinstri handlegg og öxl um 8-10 mánaða skeið, sem er einnig að byrja í hægri handlegg/öxl.
Það sést ekkert á handleggnum, en margar hreyfingar valda mér sársauka og sum verk get ég ekki unnið að lengur. Þetta veldur líka töluverðum svefntruflunum ef ég leggst á handlegginn eða set hann í óþægilega stöðu. Þegar ég sit aðgerðarlaus í hægindastól tekur oft smátíma að finna stellingu fyrir handlegginn sem ekki veldur óþægindum. Dæmi um hreyfingar/verk, sem ég á erfitt með eða er hætt að geta gert: Teygja hendina aftur á bakið, teygja mig í bílbelti, laga á mér hárið, halda hurð opinni, sópa gólf, hengja upp þvott og svo framvegis. Ég hafði fyrir nokkru samband við heilsugæslulækni í síma, hann taldi þetta vera afltaugina, og að þetta myndi lagast af sjálfu sér. En þar sem 8-10 mánuðir eru nú liðnir, og verkirnir fara frekar versnandi en batnandi, og eru þar að auki byrjaðir í hinum handleggnum líka, langaði mig til að fá álit annars læknis. Ég er 54 ára og vinn mikið á tölvu, og er yfirleitt slæm af vöðvabólgu. Vona að þessar upplýsingar komi að einhverju gagni.
Bestu kveðjur
Svar:
Verkir í öxl og handleggjum eru algengt vandamál í dag og eru oftast af völdum skemmda eða ofnotkunar á vefjum á axlarsvæðinu þ.e. vöðva, liðbanda og sina. Orsakirnar geta verið margvíslegar, en ein af algengari orsökum verkja í öxl eru svokallaðar síendurteknar hreyfingar þegar sama hreyfingin er framkvæmd oft t.d. við vinnu. Eftir þrítugt byrjar slit að myndast bæði í liðum og mjúkvefjum og getur það með tímanum farið að valda einkennum frá öxlinni. Helstu einkenni eru verkir í öxlinni við hreyfingu og jafnvel einnig í hvíld, stífni, tap á hreyfigetu og máttleysi í útlim. Sjúkrasaga þín er orðin ansi löng og ekki skrýtið að þú sért orðin þreytt á að fá ekki úrlausn þinna vandamála. Til að geta greint hver er raunverulega rótin að þínum verkjum er nauðsynlegt að skoða þig og fá enn nákvæmari sjúkrasögu t.d. eru verkirnir stöðugir eða koma þeir og fara, hvert leiðir verkurinn og svo framvegis. Fyrir konu á þínum aldri eru nokkur atriði sem koma upp í hugann sem gætu verið hugsanlegir orsakavaldar. Í fyrsta lagi vöðvabólga og þrýstingur á afltaugina, slit og bólga í mjúkvefjum axlarinnar og slit í hálsliðunum sem veldur þrýstingi á taugarætur. Hver sem orsökin er er mikilvægt að finna hana fljótt og meðhöndla, því viðbrögð okkar við sársauka eru að takmarka hreyfingu á svæðinu og öxlin er flókin að samsetningu og ef hreyfingar eru takmarkaðar í einhvern tíma er hún fljót að stífna og tekur þá oft langan tíma að koma henni í gang aftur. Ég hvet þig því eindregið til að panta tíma hjá heimilislækninum þínum sem fyrst, en læt jafnframt fylgja nokkur ráð sem gott er að nota heima til að minnka verkina. Setja kælingu á öxlina og niður á handlegginn þar sem verkurinn er. Í apótekum eru til svokallaðir kælipokar sem settir eru í frysti og eru auðveldir í notkun. Ef þú getur tekið bólgueyðandi lyf, er hægt að kaupa þau án lyfseðils í apótekum og hjálpa þau mikið. Hvíldu öxlina, og forðastu að lyfta þungum hlutum. Nudd hjálpar til við að mýkja og slaka á vöðvunum. Reyndu að gera léttar og liðkandi æfingar fyrir öxlina til að forðast að hún stífni. Með von um góðan bata,
Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir.