Verkir vegna ofhreyfanleika (hypermobility)

Spurning:

Sæl.

Ég er alltaf með svo mikla verki í höndunum, þá aðallega í sjálfum lófanum. Ég fór til læknis sem sagði mér að ég hefði of mjúka liði. Hvað er það eiginlega? Mér láðist að spyrja hann nánar út í það, en þetta var fyrir 2 árum. Síðan þá hef ég leitað mikið til að reyna að kynna mér þetta nánar. Nú er svo komið að mér er ofsalega illt í öxlinni og í hnjánum og á orðið frekar erfitt með að beygja mig niður í hnjánum og standa upp aftur og eins að ganga upp og niður tröppur (sérstaklega niður). Þetta reynir óhjákvæmilega meira á bakið og mér er stöðugt illt í bakinu og öxlunum, en ég er með hryggskekkju.
Ég er orðin mjög þreytt á stöðugt versnandi líðan og ég veit ekki einu sinni hvort eitt leiðir af öðru. Getur þetta allt verið út af þessum mjúku liðum? Ætti ég kannski að fara aftur til læknis og hvernig lækni á ég þá að hitta? Ég vona að ég sé ekki of frek á spurningarnar en ég hreinlega veit ekki hvert næsta skref á að vera.

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Þú talar um verki í höndum, einkum lófum sem þú hafðir fyrir tveimur árum þegar þú leitaðir til læknis. Ég geng út frá því að þú hafir ekki haft fleiri einkenni svo sem dofa / skyntruflun, stingi eða annað sem bent gæti til að um þrýsting á taug væri að ræða sem leiðir út í hendi. Þess vegna er ekki ólíklegt að verkirnir hafi stafað af ofálagi í úlnliðum og fingrum vegna „ mjúkra liða” eins og læknirinn hafði greint. Hann hefur eflaust skoðað þig og fundið að úlnliðir og fingurliðir væru óvenju „mjúkir”. Við erum fædd með mismunandi slök/stíf liðbönd í líkamanum. Sumir eru með ofhreyfanleika í liðum almennt (hypermobility) vegna slakra liðbanda,. aðrir hafa þetta ástand í fáeinum eða einum lið svo sem hryggjarlið/um. Ef liðbönd eru í mýkra lagi styðja þau ekki eins vel við liðina til að halda þeim í réttri stöðu og hlífa þeim ekki sem skyldi við álag. Aukin hætta er á að líkamanum sé misbeitt þar sem vantar upp á ákveðinn stöðugleika. Ef vöðvarnir eru einnig slappir aukast líkurnar á misbeitingu liðanna enn frekar. Tognun á sér stað á liðböndunum en það getur valdið verkjum á viðkomandi svæði.

Þú segir ekkert til um hvað þú starfar við og hvort þú sért í einhvers konar líkamsrækt, en það hefur heilmikið að segja upp á hvað mikið álag er á viðkomandi liðum.

Ég ráðlegg þér að leita til þíns heimilislæknis. Ef til vill telur læknirinn þinn þörf á að senda þig í ákveðnar rannsóknir til að útiloka aðra þætti eða gefa þér bólgueyðandi lyf. Engu að síður hljómar saga þín þannig að þú ættir að fá tilvísun til sjúkraþjálfara.

Sjúkraþjálfarinn skoðar líkamsstöðuna, athugar hreyfanleika og styrk liða og vöðva til að staðfesta þennan grun. Einnig þreifar hann eftir aumu svæðunum til að athuga hvort þú þurfir einhverja verkja- og bólgueyðandi meðferð. Í framhaldi af því ákveður sjúkraþjálfarinn meðferð út frá niðurstöðum skoðunarinnar. Ef niðurstaðan er ofhreyfanleiki liða gengur þjálfunin mikið út á fræðslu um liðvernd og líkamsvitund til að fá viðkomandi til að þekkja miðstöðu liðanna þar sem við eigum að beita okkur. Kennsla í líkamsbeitingu er því stór þáttur auk sérhæfðra styrkjandi æfinga til að auka stöðugleika liðanna. Öll þjálfun á að gerast innan sársaukamarka, því að mundu að verkurinn er viðvörun um að þú sért að ofgera þér og/eða beita líkamanum rangt. Þegar þjálfunin er komin vel á veg má hefja almenna styrktarþjálfun ásamt teygjuæfingum.

Gangi þér vel.
Erna Kristjánsdóttir, sjúkraþjálfari.