Verkur í hæl

Spurning:

Ég er með verki í vinstri hælnum sem gerir það að verkum að mér finnst vont að stíga í fótinn. Verkirnir eru mismiklir og eru bara staðbundnir í hælnum, verstir eru þeir þegar ég hef staðið lengi og labba svo af stað. Ég er með styttri vinstri fót og er með innlegg í skónum, munurinn er 4 cm. Þegar ég fór í göngugreiningu þá var mér sagt að það mætti lýsa sem svo að við værum með loftpúða í hælnum og í mínu tilviki þá væri hann sprungin í vinstri fæti. En ég hef stundum orðið þreytt í hælnum en ekkert í líkingu við það sem ég þoli núna, þess vegna langar mig að vita hvort það sé eitthvað til í þessum orðum sem ég fékk að heyra í göngugreiningunni og hvort það er eitthvað sem ég get gert?

Kær kveðja.

Svar:

Sæl.

Þú nefnir 4 cm mun á fótleggjalengd sem er talsvert og þarfnast uphækkunar undir skó. Meira álag er á styttri fótleggin vegna harðara ástigs og gæti orsakanna fyrir verkjunum verið að leita þar. Undir hælbeininu er fitupúði sem líkja mætti við dempara. Þessum fitupúða er haldið saman af bandvef. Bandvefurinn getur gefið sig við álag og fitupúðinn flast út. Við þetta minnkar dempunin, bil milli húðar og hælbeins minnkar, álag á hælinn eykst. Svæðið bólgnar upp og veldur verkjum. Önnur álagseinkenni koma einnig til greina svo sem bólgur í festum á hælbeini og bursitis (belgmein) sem er ástand þar sem lítill vökvafylltur poki sem liggur undir hælbeini bólgnar upp við álag og veldur verkjum svo eitthvað sé nefnt. Til eru gelinnlegg sem mýkja ástig og dreifa þunga á hælinn sem gæti hjálpað. Ef verkurinn heldur áfram ráðlegg ég þér að leita til bæklunarlæknis til að fá skoðun og greiningu og jafnvel í sjúkraþjálfun í framhaldinu.
Kveðja,
Guðrún Káradóttir sjúkraþjálfari.