Vibeden og Betolvex

Fyrirspurn:

 

Góðan daginn!

Fyrirspurn um tvö blóðskortslyf. Það kom í ljós um daginn að ég var nánast með ekkert b12 í líkamannum, ég mældist með 180 í b12(í heilbrigðum manneskjum á það að vera á bilinu 600-800) sem er mjög lítið og undir hættumörkum(sem er undir 200 að mér skilst).   Þannig að það var ávísað á mig vibeden(stungulyf gefið 5 sinnum á tveggja daga fresti og síðan á einhverja mánaða fresti) en það var ekki til í lyf og heilsu og ég var settur á betolvex(stungulyf gefið 1 sinnum á viku í 4 vikur og síðan á einhverja mánaða fresti) í staðinn.     Þannig ég spyr mun betolvex gera mér jafn gott og vibeden myndi gera? mér finnst einsog vibeden sé betra eða er það bara rugl í mér og betolvex mun gera það nákvæmlega sama þó það sé gefið bara einu sinni í viku í 4 vikur í staðinn fyrir 5 sinnum á 10 dögum?

Svar:

Fyrst má nefna að Vibeden ætti að vera til í viðkomandi apóteki þar sem það er skráð sérlyf. Ef lyfið er ekki til á apótekið að sjá um að útvega það.

Vibeden og Betolvex eru ekki nákvæmlega sömu lyfin en bæði breytast þau í sama virka efnið í líkamanum. Virka efnið í Betolvex kallast cyanocobalamin en í Vibeden er það hydroxocobalamin. Þegar Betolvex (cynocobalamin) er tekið er því breytt í hydroxocobalamin í líkamanum og því má segja að Betolvex sé forlyf af Vibeden. Hydroxocobalamin er síðan breytt í önnur form af cobalamin sem líkaminn þarf á að halda til margra hluta.

Þessi munur á lyfjunum skýrir meðferðarmuninn. Skammtarnir sem þú nefnir eru réttir en það er alls ekkert útilokað að annað lyfið virki betur á þig þar sem, eins og fyrr segir, þetta eru ekki fullkomlega sambærileg lyf. Þú ættir að nefna við lækninn þinn ef þú finnur mun á meðferðunum.

Ég geri ráð fyrir að þú hafir fengið annan lyfseðil upp á Betolvex í stað Vibeden því þetta eru ekki samheitalyf og einnig þarf læknirinn þinn að hafa upplýsingar um að þú sért á Betolvex í stað Vibeden.

Þórir Benediktsson, lyfjafræðingur