Vill ekki pabba sinn

Hæ, ég er að velta fyrir mér einu, dóttir mín sem er 16 mánaða hefur aldrei leyft pabba sínum að svæfa sig, hún verður alltaf brjáluð strax, sama á við um það þegar hann ætlar að skipta á henni, hún brjálast strax, það er ekkert mál þegar ég svæfi hana eða skipti á henni.
Ég kem alltaf inn til þess að taka við af pabba hennar og þá hættir hún strax að gráta, ég er bara að velta þvi fyrir mér afhverju þetta er?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Það er mjög erfitt að svara því hverju þetta sætir þar sem svo litlar upplýsingar eru í fyrirspurninni.

Gott er að hafa í huga að hegðun barna er lærð en ekki meðfædd. Það þýðir að hægt er að móta hana og breyta með viðeigandi kennslu og uppeldi.

Ef ekki er gripið inn í er hætt við að hlutirnir viðhaldist eða versni. Ég hvet ykkur til að vinna saman í að laga þessa hegðun.

Ef þetta er þannig að hún er háðari þér og hún er búin að finna það út að þú kemur alltaf og tekur við af pabba hennar að svæfa eða skipta á henni þegar hún öskrar, þá viðhelst þessi hegðun.

Nú fer að líða að 18 mán skoðun hjá henni á heilsugæslunni. Þið gætuð rætt þetta þar og fengið ráðleggingar ef þið hafið ekki þá þegar fundið leið.

Gangi ykkur vel,

Svanbjörg Pálsdóttir

Hjúkrunarfræðingur.