Vítamín og steinefni fyrir ófrískar konur

Góðan dag.

Hvaða vítamín og steinefni eru æskilegust fyrir ófrískar konur? Og hver eru óæskilegust?

Þakka svör fyrirfram.

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina,

Hollt og fjölbreytt mataræði ætti að sjá þér fyrir flest öllum þeim vítamínum og steinefnum sem þú þarfnast á meðgöngu, en þó eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga.

Mikilvægt er að huga að nægri inntöku fólínsýru á meðgöngu og er mælt með því að allar konur á barnseignaraldri taki bætiefni með fólínsýru og haldi því áfram að lágmarki fyrstu 12 vikur meðgöngu. Fólinsýra er mjög mikilvægt vítamín fyrir þroska fósturs á fyrstu vikunum þar sem það hefur áhrif á frumuskiptingu, en einnig hefur verið sýnt fram á að nægileg fólínsýra dregur úr líkum á miðtaugakerfisgöllum fósturs (s.s. klofnum hrygg eða heilaleysi).

Á Íslandi er einnig mælt með því að þungaðar konur, sem og aðrir, taki D-vítamín daglega.

Ekki er ráðlagt að neyta mikils A-vítamíns á meðgöngu þar sem það getur valdið fæðingargöllum í of miklu magni. Þetta á einna helst við um það A-vítamín sem er að finna í afurðum úr dýraríkinu, svo sem lifur og vörur unnar úr lifur, þar sem vítamínið er þá í svokölluðu Retinol formi sem getur haft neikvæð áhrif á fóstur. Ef þunguð kona velur lýsi sem D-vítamín gjafa sinn skal hún gæta þess að ekki sé að finna A-vítamín í öðrum bætiefnum sem hún innbyrðir, þar sem magn A-vítamíns getur þá orðið of hátt í blóði.

Hér er svo bæklingur frá landlækni þar sem þú getur nálgast ítarlegri leiðbeiningar um mataræði og næringu á meðgöngu Mataraedi a medgongu baekl.2018-5.pdf (landlaeknir.is)

með kveðju,

Auðna Margrét Haraldsdóttir
Hjúkrunarfræðingur