B-12 vítamín
B-12 vítamín (Kóbalamín) er vatnsleysanlegt vítamín sem er mikilvægt fyrir myndun rauðu blóðkornana sem sjá um að flytja súrefni um líkamann. Einnig kemur B12 vítamín að myndun og starfsemi taugakerfisins, frumuvexti, skiptingu fruma og myndun DNA.
Rauðu blóðkornin eru í hópi þeirra fruma sem skipta sér oftast og því getur skortur á B12 vítamíni valdið blóðleysi. Frumuskipting er hvað örust í blóðmynduninni og áhrif skorts á blóðið eru mikil. Fækkun rauðra og hvítra blóðkorna leiðir til þreytu og aukinnar sýkingarhættu. Minnkað framboð á blóðflögum getur einnig dregið úr storkugetu blóðsins, marblettir og blæðingar verða því tíðari.
B12 vítamín finnst aðallega í lifur, nautakjöti, svínakjöti, fiskmeti og mjólkurafurðum. Vítamínið finnst ekki í grænmeti og jurtum, aðeins í þeim smádýrum og bakteríum sem lifa á grænmetinu. Því getur verið hætta á skorti hjá þeim grænmetisætum sem sneiða hjá öllum dýraafurðum.
Rúmlega helmingur kóbalamíns í fæðunni getur farið forgörðum við suðu.
Hvað eykur hættuna á B12-vítamínskorti?
Líkaminn getur geymt nokkurra ára birgðir af B12 vítamíni í lifrinni og því er B12 skortur sjaldgæfur meðal fólks sem neytir fjölbreyttrar fæðu úr öllum fæðuflokkum. Auk þess getur líkaminn endurnýtt vítamínið í einhverju mæli.
Hætta getur verið á skorti hjá þeim sem neyta engra dýraafurða. Einnig getur upptaka næringarefna verið skert hjá eldra fólki og hjá þeim sem hafa ákveðna meltingarfærasjúkdóma
Hættan á B12 vítamínskorti eykst ef fyrir hendi er eitthvað af eftirfarandi:
- Mikil áfengisneysla
- Hár aldur samfara langvarandi einhæfu mataræði
- Vegan mataræði sem hefur verið laust við dýraafurðir (kjöt, mjólk, egg) um langa hríð
- Bandormur eða snýkjudýr
- Skortur líkamans á innri þátt (intrinsic factor) en það er efnisþáttur sem tekur þátt í frásogi kóbalamíns
- Langvarandi sýking í briskirtlinum.
- Magabólgur
- Sjúkdómar í meltingarvegi
Langtímanotkun sumra lyfja getur einnig aukið hættuna á B12 vítamínskorti:
- Neómýcín
- Getnaðarvarnartöflur
- Asetýlsalisýlsýra (magnýl) og afleiður hennar
- Krampastillandi lyf s.s. fenóbarbítal, fenýtóín og prímidon
- Metýldópa
- Kólesteróllækkandi lyf, s.s. kólestýramín og clófíbrat
- Einnig geta risaskammtar af C-vítamíni valdið skorti á kóbalamíni.
Einkenni B12 vítamínskorts og meðferð
Lifrin kemur sér upp forða af B12 vítamíni og því geta liðið mörg ár áður en B12-vítamín skortur gerir vart við sig.
Sé skorturinn alvarlegur og langvarandi skerðast viðbrögð ónæmiskerfisins mikið.
Dæmi um einkenni vegna skorts á B12 vítamíni:
- Blóðleysi.
- Magnleysi, aukinn hjartsláttur, mæði og svimi
- Meltingartruflanir, vindverkir og niðurgangur.
- Snertiskyn breytist eða minnkar.
- Náladofi
- Minnkandi titringsskynjun.
- Örðugleikar við gang og samhæfingu ásamt spastískri lömun.
- minnistap, sjóntruflanir og rugluð hugsun, ofskynjanir og rangskynjanir.
- Blóðhvarf eða mergruni
- Særindi á tungu, magaslímhúð rýrnar sem aftur leiðir til niðurgangs og skerðir myndun á innra þætti.
Meðferð við skorti B12 vítamíni fer eftir því hver orsökin er. Sé orsökina að finna í mataræði viðkomandi má lagfæra ástandið með því að breyta því eða taka fjölvítamíntöflur. Sé um tímabundið illkynja blóðleysi að ræða er hægt að gefa B12 sprautur þar til ástandið hefur jafnað sig, til dæmis þar til magabólgur hafa hjaðnað eða sníkjudýr verið drepin og fjarlægð. Í þeim tilfellum þegar um varanlegt illkynja blóðleysi er að ræða getur fólk þurft að fá B12 sprautur ævilangt.
Börnum mæðra sem eru grænmetisætur og sem ekki hafa neytt fæðubótarefna, er hættara við skorti á B12 vítamíni. Það getur valdið minni vexti í börnunum, skapillsku og í verstu tilfellum vitsmunalegum vanþroska.
Hvað má taka mikið af B12-vítamíni?
Ráðlagður dagskammtur fyrir fullorðna er um 2 míkrógrömm (einn milljónasti úr grammi). Meðal dagneysla er um það bil 6 míkrógrömm.
Upptaka B12 vítamíns um þarmana er treg samanborið við önnur vítamín. Ef tekið er inn meira vítamín í einu en þau 2 míkrógrömm sem eru ráðlögð, tekur líkaminn aðeins upp 1% af vítamíninu.
Ástæðan fyrir því hve þörfin er lítil fyrir B12 vítamín er sú að líkaminn endurnýtir það. B12 vítamín sem búið er að nýta skilst út með gallinu frá lifrinni og er tekið upp aftur í gegnum þarmana og endurnýtt.
Auk þess framleiða kólíbakteríurnar sem eru í smáþörmunum B12-vítamín sem líkaminn frásogar.
Ráðlagðir dagkammtar
Ungabörn < 6 mán | — |
Ungabörn 6-11 mán | 0,5 mcg* |
Ungabörn 12-23 mán | 0,6 mcg |
Börn 2-5 ára | 0,8 mcg |
Börn 6-9 ára | 1,3 mcg |
Karlar >10 ára | 2,0 mcg |
Konur >10 ára | 2,0 mcg |
Konur á meðgöngu | 2,0 mcg |
Konur með barn á brjósti | 2,6 mcg |
*mcg = míkrógrömm (µg)
Er hægt að taka of stóran skammt af B12-vítamíni?
Of stórir skammtar eru nær óþekktir því að það er miklum erfiðleikum háð að taka upp B12-vítamín í þörmunum. Ef B12 vítamín er hins vegar gefið í æð getur það valdið ofnæmisviðbrögðum.
Greinin birtist fyrst 1999 en var uppfærð 20.apríl 2020
Höfundur greinar
Sigríður Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar