Þruska í munni

Þruska ungbarna er tiltölulega algengt vandamál. Hún er af völdum sveppasýkingar (candida albicans). Þessi sveppur er í normalflóru í munni hvers einstaklings en ungbörn og fólk með lélegar varnir geta fengið sýkingu af völdum hans. Einkenni hans er að hvít skán kemur á tungu barnsins og innan í kinnar, stundum eins og skellur. Sveppasýking kemur stundum í kjölfarið á sýklalyfjanotkun. Smit berst einnig frá höndum annarra með snertingu og frá geirvörtum mjólkandi mæðra. Á fystu mánuðum lífsins eru mótefni ungbarna í lágmarki og ýmsir sýklar eiga greiðari aðgang til að valda sýkingum. Hafi barn sveppasýkingu í munni er ekki óalgengt, að það fái einnig sveppasýkingu á húð á bleiusvæðinu. Þruska læknast oftast af sjálfu sér á endanum en þangað til ætti að viðhafa almennt hreinlæti eins og góðan handþvott í kringum gjafir, þvo vel pela eftir hverja notkun og snuð daglega, ef slíkt er notað. Síðan eru til sveppalyf við þessu til inntöku og einnig krem til að bera á bleiusvæðið. Það þarf líka að skoða geirvörtur móðurinnar til að útiloka sýkingu þar. Gott er að ræða þetta við hjúkrunarfræðinginn í ungbarnaverndinni og hafa hann með í ráðum til að meta hvaða meðferð hentar best. Þruska getur verið þrálátt fyrirbæri en glýseról og sódavatn hjálpar stundum og er það þá borið á tungu og inn í kinnar með t.d. eyrnapinna u.þ.b. 4 sinnum á dag.

 

Höfundur greinar