Viðbeinsbrot

Viðbeinið (clavicle) tengir efri hluta bringubeinsins við herðablaðið. Algengasta orsök viðbeinsbrots er áverki t.d. eftir fall, slys eða samstuð í íþróttum.

Í flestum tilfellum læknast viðbeinsbrot af sjálfu sér með tímanum, sjúkraþjálfun og verkjalyfjum. Í stöku tilfellum gæti þó þurft aðgerð til að koma brotinu saman. Ef einstaklingur verður var við einkenni eða ef tekið er eftir einkennum viðbeinsbrots hjá börnum er mikilvægt er að fara strax til læknis. Seinkun á greiningu og meðferð getur orðið til þess að brotið sé seinna að gróa saman.

Einkenni

Miklir verkir fylgja viðbeinsbroti sérstaklega fyrst um sinn, þessir verkir geta aukist þegar öxlin er hreyfð. Önnur einkenni geta verið: bólga, eymsli, mar/marblettir, fyrirferð eða kúla sem sést/þreyfast við öxlina og stirðleiki. Ung börn hreyfa stundum ekki á sér hendina í nokkra daga eftir fæðingu vegna þess að þau eru viðbeinsbrotin.

Orsök

Helstu orsök viðbeinsbrota er áverki m.a. eftir fall á öxlina eða útrétttan handlegg, samstuð í íþróttum þegar einstaklingur fær beint högg á öxlina í íþróttaleik, slys á ökutæki t.d. bíl, mótorhjóli eða reiðhjóli. Einnig getur viðbein ungbarna brotnað við fæðingu.

Áhættuþættir

Viðbeinið er ekki orðið fullmótað fyrr en um 20 ára aldurinn. Þetta veldur því að börn og unglingar eru í meiri áhættu á að brjóta viðbein heldur en þeir sem eru fullorðnir. Áhættan minnkar þegar einstaklingar verða fullorðnir en eykst svo aftur hjá eldra fólki vegna þess að styrkleiki beina minnkar með hækkandi aldri. Einnig geta eldri einstaklingar verið með beinþynningu sem hefur áhrif á þéttleika beina.

Fylgikvillar

Flest viðbeinsbrot gróa að sjálfu sér án vandkvæða. Dæmi um fylgikvilla sem geta komið eru: Skemmdir á taugar eða æðar, beittir endar beinsins sem brotnar geta skemmt út frá sér.

Mikilvægt er að leita strax til læknis ef þú finnur fyrir doða eða kulda í höndum. Þegar beinið brotnar illa getur það gróið saman hægt og vitlaust. Þegar brotnu hlutar beinsins skarast illa getur það leitt til þess að beinið styttist. Það getur myndast hnúður á beinið þar sem það grær saman, þetta sést greinilega þar sem beinið er svo nálægt yfirborði húðarinnar. Flestir hnúðar hverfa með tímanum en sumir eru varanlegir.

Höfundur greinar