Blæðandi magasár og mataræði

Spurning:

Ég er með blæðandi magasár og búin að vera á lyfjum í 6 vikur og ekkert gengur að ná aftur bata.

Er möguleiki á að lækna eða lina þjáningar magasjúklinga með breyttu mataræði, og ef svo er hvernig? Mér var sagt að ekki mætti drekka kaffi og langar að vita hvort það sé það rétt? Hvað með steiktan mat, er hann í lagi?

Svar:

Hér áður fyrr voru til ýmsar ráðleggingar varðandi mataræði þeirra sem voru með magasár. Rannsóknir síðari tíma leiddu það hins vegar í ljós að slíkt mataræði var ekki næstum því eins áhrifaríkt og lyfjagjöf (þegar þróun lyfja fór á fullt) og var í sumum tilfellum beinlínis óheilsusamlegt. Það má því segja að í tímans rás hafi verið skipt yfir úr mataræðismeðferð til lyfjameðferðar í meðferð magasárs. Samt standa eftir nokkrar ráðleggingar, en þær eru að forðast mat sem veldur ÞÉR óþægindum, svo og að forðast kaffi og alkóhól – sérstaklega á fastandi maga.

Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir,
matvæla- og næringafræðingur