Ég á erfitt með að einbeita mér og er eirðalaus

Spurning:

Heill og Sæll.

Ég veit ekki alveg hvernig eða hvar ég á að byrja en ég held að ég sé með „vott“ af ADD og AD, eða Attention Defecit Disorder og Anxiety Disorder, og í framhaldi af því þunglyndi.

Ég hef alltaf átt erfitt með að einbeita mér, alveg frá því að ég var krakki. Ég var vanur að sitja inni í herbergi yfir heimalærdómnum í fleiri tíma í rauninni ekki að gera neitt, týndur í einhverjum dagdraumum, þar til mamma kom inn og sagði mér að hætta þessu hangsi. Ég hef lengi trúað því að þetta væri bara leti en samt er ég ekki latur til verksins í vinnunni, jæja, kannski ekki sá fljótasti af stað en þegar ég er byrjaður þá held ég ágætlega áfram. Ég er líka þekktur fyrir það að segja illa frá, eða kannski réttara sagt að vera ákaflega lélegur sögumaður (þó mér hafi líka verið sagt að ég sé ágætur penni) því ég undantekningalítið veð úr einu í annað (eins og þú átt sjálfsagt eftir að taka eftir) þannig að ég er sá eini sem hefur einhverja hugmynd um hvað ég er að tala, allir aðrir eru fyrir löngu búnir að missa þráðinn.

Þrátt fyrir að lélega námstækni í grunnskóla gekk mér ágætlega í samræmdu prófunum, allavega nógu vel til að komast í Verzlunarskólann, en fljótlega eftir að ég byrjaði þar fór mér að ganga illa. Veturinn byrjaði þannig að ég var fram eftir nóttu að læra heima, (byrjaði kannski ekki fyrr en eftir kvöldmat) og fljótlega gafst ég bara upp, var orðinn þreyttur og fannst námið ekki þess virði að vaka hálfu næturnar yfir því. Ein af ástæðunum fyrir því að ég lærði heima í grunnskóla (fór aldrei ólærður í skólann) var sú að ég var logandi hræddur við að verða tekinn upp og standa svo á gati. Fyrir utan þetta þá hef ég alltaf verið mjög feiminn. Það fylgir mér enn í dag (AD), þ.e.a.s. ég býð ekki fram skoðanir mínar eða álit nema ég sé þess fullviss að ég viti hvað ég er að tala um. Þrátt fyrir að hafa gengið illa í skóla, sem ég var viss um að orsakaðist af fullkomnu áhugaleysi á viðfangsefninu dreif ég mig í framhaldsnám erlendis. Ég var ákveðinn í því að nú þegar ég vissi hvað ég vildi verða þá væri þetta vandamál mitt úr sögunni. En aldeilis ekki. Ég fékk reyndar góðar einkunnir en ég stundaði námið illa. Ég var tvo vetur úti og seinni önnina, seinni veturinn, var ég orðinn mjög leiður og óskaði mér þess oft heitt og innilega að ég væri heima á Íslandi. Svo kom ég heim, fór í háskólanám hérna heima, og sama sagan endurtekur sig. Í framhaldi af því er mér farið að líða illa yfir getuleysi sjálfs míns og er farinn að óska þess að vera að gera eitthvað annað, vera einhversstaðar annarsstaðar. En ég veit það bara það, að hvað sem það væri sem ég tæki mér fyrir hendur færi á sama veg og áður.

p.s. Fékk 47 stig á þunglyndisprófinu á síðunni ykkar.

Svar:

Heill og sæll.

Það kann vel að vera að þinn vandi tengist bæði kvíða og athyglisbresti. Því miður er ekki hægt að skera úr um það á þessum vettvangi. Það er oft þannig að eitt vandamál verður til þess að annað verður til og á endanum er erfitt að átta sig á því hvað er hvað. Í þínu tilfelli blandast saman einbeitingar- og áhugaleysi í skóla og svo í seinni tíð efasemdir og minnkandi sjálfstraust. Það er hins vegar deginum ljósara að þér hefur ekki tekist að finna þér farveg sem þú ert sáttur við og líður vel í. Svo er það yfirleitt þannig að eitthvað fleira kemur til sem flækir myndina.

Einfaldast væri fyrir þig að leita til einhvers fagmanns sem gæti hjálpað þér að draga upp skýra mynd af líðan þinni og segja þér hvað helst er til ráða. Sálfræðiþjónustan Eirð hefur sérhæft sig í vandamálum sem tengjast athyglisbresti, Sálfræðiráðgjöfin (Kjörgarði) hefur sinnt prófkvíða og ýmsu sem tengist námi og því að finna að hverju áhuginn beinist. Aðrir sálfræðingar geta án efa liðsinnt þér. Taktu næsta skref og leitaðu aðstoðar.

Bestu kveðjur og óskir um gott gengi.

Hörður Þorgilsson, sálfræðingur