Guillian-Barré syndrome GBS

Hvað er Guillian-Barré Sjúkdómur (GBS)?

Guillian-Barré sjúkdómur er sjaldgæfur bólgusjúkdómur þar sem ónæmiskerfið ræðst á eigið úttaugakerfi, þ.e. taugarnar utan heila og mænu. Sjúkdómurinn byrjar yfirleitt með skyndilegu máttleysi eða doða í útlimum sem getur svo breiðst út tiltölulega hratt og endað á að allur líkaminn lamast. Sjúkdómurinn er þess vegna alvarlegur og flestir sem fá hann þurfa að leggjast inn á sjúkrahús.

Orsakir GBS eru óþekktar en tveir þriðju þeirra sem greinast haf verið með sýkingu af einhverju tagi 6 vikum fyrir greininguna. Þetta eru yfirleitt vírussýkingar  sem lýsa sér í maga eða öndunarfæraeinkennum. Sjúkdómurinn er algengari í körlum heldur en konum og líkur aukast eftir hækkandi aldri.

Engin lækning er til en ýmsir meðferðarmöguleikar eru til sem draga úr einkennum og áhrifum þeirra og stytta bataferlið. Flestir jafna sig að fullu eftir að  sjúkdómurinn hefur gengið yfir og 60-80% sjúklinga eru farnir að ganga að nýju eftir 6 mánuði.

Þó mörg tilfelli séu væg, þá verða sumir sjúklingarnir nánast lamaðir. Öndunarvöðvarnir geta verið svo slappir að einstaklingur þurfi öndunarvél til að anda. Margir sjúklinganna þurfa að vera á gjörgæslu til að byrja með, sérstaklega ef öndunarvöðvarnir veikjast. Flestir sjúklinganna jafna sig nánast alveg og geta aftur lifað eðlilegu lífi og gert það sem þeir gátu áður,

Hvernig er GBS greint?

Oft er hægt að greina sjúkdóminn með líkamsskoðun og sögu. Skyndilegt máttleysi eða lömun útlima, ásamt einkennilegri tilfinningu í báðum útlimum jafnt er algeng. Missir á ósjálfráðum viðbrögðum s.s. í hné fylgir yfirleitt. Til að staðfesta sjúkdómsgreiningu er yfirleitt tekinn mænuvökvi og greindur. Er þar leitað eftir því hvort finnist ákveðnar breytingar sem einkenna sjúkdóminn, loks eru tauga- og vöðvapróf gerð til staðfestingar.

Hvernig er GBS meðhöndlað?

Vegna þess hvað gangur sjúkdómsins er óútreiknanlegur í byrjun, er nýgreint fólk yfirleitt lagt inn á sjúkrahús til eftirlits, jafnvel inn á gjörgæslu ef sjúkdómurinn virðist ætla að hafa áhrif á öndunarfæri.

Meðferð felst fyrst og fremst í almennri umönnun og einkenna meðferð. Það fer töluvert eftir því hversu alvarlega sjúkdómurinn leggst á einstaklinginn hversu mikillar umönnunar er þörf. Í sumum tilfellum er gefið immunóglóbulín eða blóðplasma hreinsað (plasmapheresis).

Fljótlega eftir að sjúklingar eru komnir á sjúkrahús og sjúkdómurinn kominn í jafnvægi er hafin endurhæfing. Endurhæfingin felst í því að virkja aftur taugaboð og ýta undir sjálfráðar hreyfingar eftir því sem taugaboðin virkjast á ný.

Flestir sem fá sjúkdóminn jafna sig að fullu þrátt fyrir alvarleika hans.

Höfundur greinar