Ég á strák sem á í erfiðleikum?

Spurning:
Ég á í smá vanda, ég á strák sem á í erfiðleikum, þannig er að pabbi hans (við erum skilin) lofar honum að koma og lætur ekki sjá sig. Hann er núna búinn að bíða í 4 vikur eftir honum og í þessum vikum var afmælið hans. Hann er orðin erfiður í skapi segist ekki eiga neina vini (en hann átti fullt af þeim) rífur kjaft og er alltaf í slagsmálum. Hann talaði um að hann væri lagður í einelti í skólanum og hafi sagt kennaranum það en hún lítur bara í hina áttina, og svo er hann mjög grátgjarn. Þetta barn var ekki svona hann var alltaf blíður og góður.

Pabbi hans hefur alltaf verið svona, lofað og lofað og svíkur allt en hinn biður og biður og enginn kemur. Þetta er farið að bitna á fjölskyldunni og vinunum ég veit ekki hvað ég á að gera ég er alveg strand. Afmælisdagurinn hans er erfiður vegna þess að fyrir ári missti hann besta vin sinn á þeim degi, og hefur ekkert viljað tala um það ennþá. Hann byrgir allt inni og á endanum springur hann en hann er med mikið skap og mér finnst það að ef ekkert er gert getur hann lent í miklum vandræðum seinna meir. Hann er þeirra skoðunar að allir eiga að vera vinir og ekkert fær því haggað.

Ég vona að þú getir gefið mér einhver ráð því að mér líður illa a að sjá hann svona og ég veit að honum líður ekki vel.

Svar:
Þú drepur á ansi margt í þessu stutta bréfi. Það er skilnaður foreldra, svik föður, einelti, skapofsi, vinaleysi, bæling og vinamissir. Eins og gefur að skilja er ekki gott að gefa ráð í nokkrum línum þegar dæmið er svona flókið. Ég ráðlegg þér að leita hjálpar.

Þú getur reynt að fá þá hjálp út úr skólakerfinu sem þar er að fá. Þótt einn kennari hafi ekki gert neitt í málinu eftir kvörtun sonarins getur þú farið í málið. Gáðu hvort strákurinn hefur ekki aðgang að sálfræðingi í gegnum skólann.

Þú getur líka athugað hvort skólinn þinn býður upp á listmeðferð. Það er nýtt meðferðarform sem er að ryðja sér til rúms í nokkrum skólum. Krakkinn er þá látinn föndra eitthvað, lita eða teikna, og tjá sig og um leið er listmeðferðarfræðingurinn að vinna með tilfinningar hans.

Ef skólinn bregst alveg skaltu leita til sálfræðings úti í bæ og fá hjálp frá honum. Það þarf að kanna þetta allt saman miklu betur áður en ráð eru gefin.

Gangi þér vel.
Reynir Harðarson
sálfræðingur
S: 562-8565