Í ljósi mikilla umgangspesta undanfarin misseri er gott að hafa í huga hvað við getum gert sjálf til þess að styrkja ónæmiskerfið, efla varnir líkamans og halda því góðu árið um kring.
Svefn
Tryggðu minnst sjö til níu tíma svefn á nóttu. Góður svefn styrkir ónæmiskerfið. Mikilvægt er að skapa góða rútínu í kringum svefninn. Reynum að sofna og vakna á svipuðum tíma alla daga. Með því að vakna á svipuðum tíma á morgnanna verður auðveldara að festa svefn á kvöldin. Slökun og dauf lýsing er ákjósanleg fyrir svefninn. Höfum þægilegt hitastig í svefnherberginu, dimmu, ró og reynum að takmarka skjátíma fyrir svefn. Þegar svefninn er af skornum skammti eykst löngunin í einföld kolvetni, við hreyfum okkur minna og sækjum meira í koffín. Regluleg hreyfing sem kemur púlsinum upp hjálpar einnig við að ná betri djúpsvefni.
Mataræði
Hugum að því að borða fjölbreytta og hreina fæðu , aukum við okkur ávexti og grænmeti og minnkum við okkur unnin matvæli. Drekkum vel af vatni, minnst 2 lítra á dag og takmörkum viðbættan sykur eins og hægt er. Rannsóknir hafa sýnt áhrif matarræðis á heilsuna og þar með ónæmiskerfið. Mikið af hvítum sykri, hertri fitu og lítið af trefjum getur ýtt undir bólgusvar í líkamanum en lífstílstengda sjúkdóma á vesturlöndum má rekja til bólgusvars í líkamanum, eins og hjarta- og æðasjúkdóma, gigtar og sjálfsofnæmissjúkdóma. Þau vítamín sem ónæmiskerfið þarf eru A,C,D, og E. Einnig eru steinefni, járn og zink mikilvæg til að viðhalda góðri virkni ónæmiskerfisins. Best er að fá þessi vítamín úr fæðunni en D vítamín þurfum við að taka aukalega. Mælt er með 600 AE eða 15 µg á dag frá 10 ára til 70 ára aldurs.
Hreyfing
Hreyfing í hófi styrkir ónæmiskerfið. Ráðlagt er að hreyfa sig daglega í minnst 30 mínútur. Hvort sem það er göngutúr, hlaup, líkamsrækt, fjallgöngur, sund eða hvað annað. Regluleg hreyfing hefur fyrirbyggjandi áhrif á hjarta- og æðasjúkdóma, blóðtappa og háþrýsting og eykur liðleika. Hreyfing er spennulosandi og hefur jákvæð áhrif á geiðheilsuna. Sprettur upp tröppurnar, taka nokkrar mínútur í teygjur eða göngu getur gert gæfumuninn. Frábær leið til að auka félagsleg tengsl er að stunda hreyfingu í hópi.
Streitustjórnun
Mikil streita getur haft neikvæð áhrif á ónæmiskerfið og veiklar varnir líkamans. Því er mikilvægt að reyna að minnka streituvalda í okkar lífi. Áhrifaríkar leiðir til þess að minnka streitu eru t.d. hugleiðsla, jóga og öndunaræfingar. Verum í félagslegum tengslum við vini, fjölskyldu eða vinnufélaga. Hlátur er spennulosandi. Reynum að njóta hversdagsleikans, förum í heitt bað, sund eða í nudd. Á kvöldin getur verið gott að dempa ljósin, minnka skjánotkun, fá sér te eða lesa góða bók.
Höfundur greinar
Auður Hávarsdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar