Einelti á vinnustað

Spurning:

Í vor var farinn óvissuferð á vegum vinnunar og einhvern veginn atvikaðist það að farið var að gera (í fyrstu góðlátlegt) grín að mér. Þetta byrjaði allt í góðu og ég tók þátt í þessari vitleysu en kollegar mínir virðast ekki geta hætt og er ég nú orðinn leiksoppur á vinnustaðnum mínum.

Á hverjum degi kvíði ég því að mæta í vinnuna og veit aldrei hvernig kaffi-/matartíminn verður. Nú er þetta orðið það mikið mál fyrir að ég íhuga að skipta um vinnu. Ég hef reynt að biðja þá um að hætta þessu en allt kemur fyrir ekki. Er ekki til eitthvað sem heitir „einelti" á vinnustað?

Með von um svar

Svar:

Komdu sæll og þakka þér fyrirspurnina

Gamalt máltæki segir: „Hætta skal leik þá hæst stendur”. Sumir kunna sér hins vegar ekki alltaf hóf og vita ekki hvenær nóg er komið. Ef ekki dugir að benda þeim á hvernig komið er, þá skiptir máli að þú bregðist við áreitni þeirra með einhverjum þeim hætti að þeir nenni ekki meir.

Jú, einelti er vissulega til á vinnustöðum en það er misalvarlegt, jafnvel svo að spurning er hvort rétt sé að kalla afbrigðin einu og sama nafninu. Stundum gengur það svo langt að nokkuð flókið getur verið að greina einstaka þætti þess og stöðva þá framvindu sem komin er í gang.

Í slíkum tilvikum þarf oftast utanaðkomandi ráðgjöf sem yfirmaður biður um og víðtæka vinnu í nokkurn tíma sem allir á vinnustaðnum taka virkan þátt í, yfirmennirnir líka. Það er með öðrum orðum stjórnunarlegs eðlis að stöðva og fyrirbyggja einelti sem farið er að mergsjúga vinnustaðinn og andrúmsloftið þar.

Það sem við köllum einelti getur skapast við ýmsar hversdagslegar aðstæður sem hafa það sameiginlegt annars vegar að einhvers konar valdamunur ríkir á milli geranda og þolandans líkt og í öðrum ofbeldismálum, þótt engin líkamleg átök eigi sér stað, og hins vegar að þolandinn er á einhvern hátt háður gerandanum t.d. faglega, fjárhagslega eða tilfinningalega.

Samkvæmt sögu þinni, skilst mér reyndar að flestir eða allir vinufélagar þínir taki þátt í þessum aðsúg að þér og aðstæðurnar séu þær sömu, þ.e. matar- og kaffitímar.

Reynslan segir okkur að í slíkum tilvikum þá fylgi hópurinn einum eða einhverjum örfáum mjög sterkum sem stjórni. Án þeirra muni fjöldinn tæplega hafa sig í frammi í þessu samhengi. Enda er það oft raunin að langflestir eru „óvirkir með” og líður jafnvel ekki vel yfir því. Ef þú áttar þig á hver eða hverjir eru leiðtogarnir, getur það hjálpað þér við að binda endi á þetta óskemmtilega ástand. Ef þér sýnist hins vegar ógerlegt að finna hverjir þeir eru, þá gæturðu e.t.v. punktað hjá þér hverjir voru viðstaddir (eða hverjir ekki) og athugað eftir nokkra daga hvort það gefur þér einhverjar vísbendingar. Eru t.d. alltaf sömu mennirnir til staðar? Og ef þetta er mjög fjölmennur vinnustaður, þykir mér líklegra að það sé fólkið sem situr við sama eða næsta borð og þú sem um er að ræða, en ekki allur salurinn.

Samkvæmt sögunni þá dregur maður þá ályktun að hvorki sé um viðkvæman faglegan ríg og öfund að ræða né tiltekna valdabaráttu, heldur frekar að þetta snúist um félagsleg atriði. Og eins og þú nefnir tókstu sjálfur þátt í þessu svona til að byrja með á ferðalagi sem góðlátlegu gríni, sem virðist hins vegar hafa farið úr böndunum og haldi áfram þér til ama. Svo skrýtið sem mörgum kann að finnast það, þá er langalgengast að með viðbrögðum sínum viðhaldi þolandinn því ástandi sem við köllum einelti, a.m.k. svona til að byrja með. Viðbrögðin geta verið margvísleg, s.s. að taka undir og hlæja með, bugast eða stökkva upp á nef sér. Nú er spurning hver viðbrögð þín eru eftir að þú hættir að taka þátt í því með þeim að gera grín að sjálfum þér? Getur verið að þú gerir eitthvað annað núna sem þau sækjast líka eftir að sjá? Prófaðu að punkta viðbrögð þín hjá þér í nokkra daga og skoða hvað þú sérð. Bregstu alltaf við á sama eða á líkan hátt við áreitni þeirra og sérðu eitthvert ákveðið mynstur í því?

Ef þú punktar svona hjá þér, þá geturðu fengið grófar en samt gagnlegar upplýsingar um stöðu mála. Þetta hefur tvíþættan tilgang. Annars vegar til að leiðbeina þér um hvernig þú gætir gripið inn í til að rjúfa þetta samspil milli ykkar sem væntanlega er í gangi, og síðan til að bera núverandi stöðu við þær breytingar sem vonandi verða á henni eftir að þú hlutast til um málin.

Í hverju inngrip þitt á að felast, getur hins vegar verið erfitt að segja til um án þess að vita meira um samhengið, en að öllum líkindum þarftu að bregðast við með ÖÐRUM hætti en þú gerir núna. Mæta á öðrum tíma í mat? Sitja annars staðar? Fara að tala um eitthvað annað? Hverjar eru sterku hliðarnar þínar? Geturðu á einhvern hátt beitt þeim eða beint athyglinni að þeim?

Ertu orðheppinn? Geturðu t.d. svarað í s&ou
ml;mu mynt þannig að „aðförin" verði neyðarleg?

Það skiptir einnig mjög miklu máli hvort (næsti) yfirmaður þinn er með í þessu. Ef svo er, þá þarftu e.t.v. að endurskoða veru þína á vinnustaðnum eða fá þig fluttan til, ef það er mögulegt. Sama er að segja ef þú finnur engan starfsfélaga sem þú þekkir og treystir og getur talað við í trúnaði um málið og fengið til að styðja þig. Reyndar þykir mér það vera ólíklegt af sögunni að dæma, því samvæmt henni er þetta tiltölulega nýtt og lesandinn fær það frekar á tilfinninguna að það sé allra jafna gott andrúmsloft á vinnustaðnum. Ef þetta er í rauninni vænsta fólk, er mjög líklegt að það taki sig á ef þú talar við einhver þeirra í einrúmi.

Svo er líka önnur hlið á málinu. Hún er sú að sumir sem kvarta yfir einelti eru í rauninni ekki áreittir meira en gengur og gerist. Þeir þola það bara síður. Á sumum vinnustöðum er gott vinnutengt andrúmsloft en mikil stríðni þess á milli. Ef þú telur að þetta geti átt við í þínu tilviki, reyndu þá að átta þig á, t.d. með því að punkta hjá þér eins og nefnt er hér að ofan, hvort öðrum er bara ekki strítt jafnmikið og þér. Tekur þú þátt í því?

Að lokum:

Eins og þú sérð á svarinu er það sem við köllum einelti heiti á margháttaðri atburðarás og breytilegu samhengi sem þó hefur ákveðin sameiginleg einkenni. Það spannar nokkuð langt svið; allt frá því að vera mjög alvarlegt og flókið mál sem verður tæpast lagað nema með gjörbreyttri stjórnun og viðkomandi þolandi getur ekki leyst án hjálpar, upp í það að vera góðlátleg stríðni sem fólk verður að geta þolað og brugðist við á einhvern hátt af fullum styrk, eða leitt hjá sér án þess að truflast.

Hver og einn sem finnur sig vera flæktan í eineltismál, þarf að reyna að greina áhrifaþætti þess og í framhaldinu að átta sig á hvar á alvarleikakvarðanum málið hans er. Eðli inngripsins ræðst af því.

Gangi þér vel með það
Guðríður Adda Ragnarsdóttir, atferlisfræðingur