Er á hormónatöflum, fór samt á blæðingar?

Spurning:

Ég hætti á blæðingum fyrir 2 árum og hef verið á hormónatöflum (Livial) síðan í desember. Fór í tékkun og breytingaskeið greinilega byrjað enda ýmis einkenni komin fram. Ég er 41 árs. Spurningin sem ég hef fyrir sérfræðing ykkar er:
Ég byrjaði á blæðingum í gær (miklum), engir verkir eða neitt því um líkt sem fylgja, er þetta eitthvað sem getur komið fyrir eða er þetta eitthvað óeðlilegt?
Þessar blæðingar eru alveg eins og þegar ég fór reglulega á blæðingar þ.e. miklar í byrjun.
Kveðja.

Svar:

Ágæti fyrirspyrjandi.

Þetta er hlutur sem getur hent hvenær sem er á hormónauppbótarmeðferð. Þar sem þetta gerist svo snemma í meðferð þinni, ætti það ekki að merkja að neitt sé að. Hins vegar á sérhver kona sem fer á hormónameðferð að fá fræðslu um slíkt frá sínum lækni sem þekkir til þín og veit hvort eitthvað var að við skoðun. Mæli ég því með að þú hafir samband við hann og ræðir þetta.

Kveðja,
Arnar Hauksson