Getnaðarvarnir og A&D-dropar?

Spurning:

Komdu sæl.

Ég er 26 ára og átti mitt fyrsta barn fyrir 3 mánuðum. Allt gengur eins og í sögu en það sem er að trufla mig eru vangaveltur um getnaðarvarnir. Ég var á pillunni áður en ég varð ófrísk en hún hefur aldrei farið vel í mig.

Þegar ég fór í eftirskoðun til læknis eftir fæðinguna þá bauð hann mér annaðhvort pilluna eða lykkjuna. Ég hafði ekki rænu á að spyrja hvort það væri eitthvað fleira í boði og tók pilluna þó ég væri alls ekki ánægð með það. Ég byrjaði að taka þessa minipillu og fannst eins og ég finni strax fyrir skapgerðarbreytingum og auk þess hafði ég blæðingar þó svo pillan ætti að stoppa þær. Svo ég hætti! Þá fór ég að velta öðrum kostum fyrir mér eins og t.d. lykkjunni og þá vöknuðu spurningar: er lykkjan eins hættuleg og maður heyrir? Ég er búin að heyra óteljandi sögur um utanlegsfóstur, eitranir, sýkingar og þunganir sem konur hafa lent í þegar þær voru á lykkjunni. Er lykkjan varasöm? Er hettan algeng getnaðarvörn? Ég og maðurinn minn höfum lítinn áhuga á að nota smokk næstu árin og höfum ekki í hyggju að eignast annað barn strax svo ég spyr: hvað er til ráða? Hvaða getnaðarvörn er algengust hjá konum sem hafa átt barn?

Ég er reyndar með aðra spurningu sem er ekki neitt skyld þeirri fyrri og hún er í sambandi við þurrmjólk. Brjóstagjöfin hefur ekki gengið vel hjá mér, svo fyrstu 2 mánuðina mjólkaði ég mig og gaf syni mínum með pela. Núna er framleiðslan orðin mjög lítil og hann fær mun meira af þurrmjólk en „mömmumjólk“. Mér var sagt að byrja að gefa honum A&D-dropa þegar hann var 4 vikna og hef gert það samviskusamlega en það sem ég er að velta fyrir mér er hvort börn sem fá nær eingöngu þurrmjólk (sem er inniheldur bæði A og D vítamín) þurfi A&D-dropa?

Með von um að fá svör,
nýbökuð mamma.

Svar:

Það má með sanni segja að ekki sé um auðugan garð að gresja þegar getnaðarvarnir eiga í hlut. Margar konur kvarta undan pillunni en hafa ber í huga að til eru margar gerðir af pillum með mismunandi hlutfalli virkra hormóna þannig að þótt ein pillutegund henti ekki getur önnur virkað ágætlega. Þó er varasamt að taka samsetta pillu (progesteron og estrogen) meðan verið er með barn á brjósti þar sem estrogenið minnkar mjólkurmyndun og ekki er talið gott fyrir barnið að fá í sig þetta kvenhormón í gegnum mjólkina. Hvað varðar lykkjuna, þá eru til tvær megintegundir af lykkjum, venjulega lykkjan sem er plastlykkja með koparþræði utanum og svo hormónalykkjan sem er með hylki með hormónum í. Báðar lykkjurnar koma í veg fyrir að frjóvgað egg geti sest í slímhúðina. Hormónalykkjan virkar þar að auki á slímhúð legsins þannig að hún verður þynnri og slímið í leghálsinum og eggjaleiðurunum óhagstætt fyrir sæðisfrumurnar. Blæðingar eru einnig yfirleitt minni en venjulega sé hormónalykkjan notuð, en ef sú venjulega er valin er algengara að blæðingar séu ríkulegri. Alvarlegir fylgikvillar lykkju eru sjaldgæfir en þó eru utanlegsfóstur algengari hjá konum með lykkjuna (þó síður hormónalykkjuna), sýkingar geta komið í kjölfar lykkjuuppsetningar og fyrir kemur að lykkjan gerir gat á leg eða eggjaleiðara (mjög sjaldgæft). En á móti kemur að lykkjan er mjög örugg getnaðarvörn (98% sú venjulega, yfir 99% hormónalykkjan). Á Íslandi er lykkjan mjög algeng getnaðarvörn hjá konum sem fætt hafa barn og hormónalykkjan er að sækja á þá gömlu. Hormónalykkjuna er óhætt að nota þótt kona hafi barn á brjósti. Það er fremur sjaldgæft að konur noti hettuna, en hún er ágætis getnaðarvörn ef hún er rétt notuð með sæðisdrepandi kremi. Hettuna þarf að setja upp fyrir samfarir og láta vera á sínum stað, yfir leghálsinum, með sæðisdrepandi kremi í 12 klst. eftir samfarir til að öruggt sé að sæðisfrumurnar séu dauðar. Segja má að hettan virki líkt og smokkurinn og oft hefur fólk skipst á hvort notar getnaðarvörnina í það og það skiptið. Aðrar getnaðarvarnir sem til eru eru getnaðarvarnarsprauta sem er hormónasprauta gefin á 3 mánaða fresti og svo eru til hylki með hormónum sem eru grædd undir húð og gefa frá sér nægan skammt hormóna til að halda egglosi niðri. Spjallaðu um þetta við heimilis- eða kvensjúkdómalækninn þinn og fáðu ráð og leiðbeiningar.

Hvað varðar AD dropana þá er æskilegt að öll börn á Íslandi fái þá vegna þess hve lítil sól er hérna og þ.a.l. lítil myndun D vítamíns í húð. Þótt bæði vítamínin séu í þurrmjólkinni þá þarf barnið samt aukaskammt af D vítamíni til að nýta kalkið sem best.
Vonandi svarar þetta spurningum þínum.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir