Getur hveiti, sykur og ger valdið ofnæmi?

Spurning:

Ég hef að undanförnu verið að lesa mig til um hollari lífshætti og reynt að fylgja því eftir af megni. Í erlendri bók rakst ég á klausu þar sem það var staðhæft að hvítur sykur, hvítt hveiti og ger hafi slæm áhrif á efnaskiptin og geti valdið ofnæmi. Getur þú frætt mig nánar um það?

Svar:

Þessi staðhæfing á ekki við vísindaleg rök að styðjast og ekki hefur verið hægt að sýna fram á með vísindalegum rannsóknum að hvítur sykur og hvítt hveiti séu beinlínis skaðleg fyrir líkamann. Áhrif gers á líkamann hafa ekki verið rannsökuð nægilega mikið til að hægt sé að fullyrða að það hafi ekki slæm áhrif.

Mikil neysla á fínunnum sykri (hvítum sykri) getur þó haft í för með sér að næringarþéttni fæðunnar verði lítil og að þörf kyrrsetufólks fyrir næringarefni sé ekki fullnægt. Ástæðan er sú að hvítum sykri fylgja engin lífsnauðsynleg vítamín né steinefni – aðeins orka. Ef næringarefnaþörf okkar er ekki fullnægt getur það leitt til næringarefnaskorts sem getur haft slæm áhrif á líkamann. Hvítur sykur er einnig slæmur fyrir tennurnar.

Hvítt hveiti inniheldur ýmis lífnauðsynleg næringarefni en þó í mun minna magni heldur en heilhveiti. Hvítt hveiti er því snauðara af vítamínum, steinefnum og trefjum heldur en heilhveiti eða hveitiklíð. Þetta er meginástæða þess að hvítt hveiti hefur verið talið óhollt, þó svo að það hafi ekki beint slæm áhrif á líkamann – er það bara ekki eins hollt og heilkorn. Þar sem uppistaðan í fæði fólks er brauð getur verið hætta á næringarefnaskorti ef aðeins er notað hvítt hveiti í baksturinn.

Hvítur sykur er ekki ofnæmisvaldur. Glútein í hveiti getur valdið ofnæmiseinkennum hjá þeim sem þjást af glúteinóþoli. Ef viðkomandi hefur glúteinóþol á annað borð þolir hann hvorki hvítt hveiti né heilhveiti, því að ofnæmi fyrir hvítu hveiti eingöngu þekkist ekki. Í geri eru prótein sem geta verið ofnæmisvaldar, en ger er mjög fátíður ofnæmisvaldur hér á landi.

Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir, næringafræðingur