Hætt að drekka kók – hvernig venst ég því?

Spurning:
Halló.
Ég ætlaði að leita ráða. Ég er kókisti og drakk allt að 5 lítra á dag. Ég er ný hætt (júbbí) og hef verið að losna smám saman við hausverk og annað. En þannig er mál með vexti að núna er ég alltaf þreytt og svöng. Kókið gerði það að verkum að ég borðaði sjaldan, en núna er ég óð í mat, sem betur fer hollan þó. Hvað get ég gert til að venjast þessu nýja ástandi betur og hvað get ég gert til að laga sykurmagn líkamans? Ath. ég tek króm, er það gott?

Með fyrirfram þökkum, ein kóklaus

Svar:
Komdu sæl.

Ég óska þér til hamingju með að hafa látið af þessu óhóflega gosþambi. Fráhvarfseinkennin sem þú hefur fundið fyrir eru tilkomin vegna þess að þú hefur minnkað verulega koffeinneysluna en dökkt gos eru jú mjög auðugt af koffeini. Algeng orkuþörf kvenna er á bilinu 1600-2400 hitaeiningar á dag. Til gamans má geta að 5l af sykruðu gosi gefa um 2500 hitaeiningar. Til að fá hugmynd um hvernig ,,hollt og gott" mataræði getur litið út vil ég benda á 48 ,,hugmyndardaga" sem er að finna á vefsíðunni www.hreyfing.is en dagarnir gefa á bilinu 1500-2000 hitaeiningar.
Varðandi það að ,,laga sykurmagn líkamans" þá er ólíklegt að líkami þinn vinni ekki eðlilega úr sykri (kolvetnum) en þó er ljóst að þú þarft að koma reglu á neysluna. Ef þú finnur fyrir sterkri löngun í eitthvað sætt vil ég mæla með dísætum ávöxtum eins og vínberjum, sveskjum og appelsínum.
Hvað varðar að neyta króms (krómíum píkolínate) í fæðubótarformi til að bæta sykurbúskap líkamans þá má geta þess að það er sjaldgæft að fólk hér á landi þjáist af krómskorti og fólk sem hefur nægilegt króm í líkama græðir ekki á að neyta efnisins í fæðubótarformi. Afurðir auðugar í krómi eru t.a.m. kjöt, grófkornmeti, hnetur, ostar og jurtaolíur.

Með kveðju, Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur