Hef verið með samdráttarverki alla meðgönguna?

Spurning:
Kæra Dagný, mig langar að forvitnast aðeins um eitt, ég er komin 27.vikur á leið og hef verið með samdráttarverki svo til alla meðgönguna, Ég var látin hætta að vinna fyrir nokkrum mánuðum því ég átti í hættu að missa barnið. ég hef verið ólétt áður og misst í öll skiftin nema núna, þetta er það lengsta sem ég hef gengið með:) en eins og ég sagði þá hef ég verið með samdráttarverki og læknirinn minn veit náturulega alla mína sögu,ok það sem mig langar að spurja þig að, er algengt að læknar láti konur fá lyf við við þessu??

læknirinn minn er orðinn svolítið gamall og fer en eftir gömlu aðferðinni og mig langar bara að vita hvort þetta sé í lagi fyrir barnið?? með von um skjótt svar, ein með áhyggjur.

Svar:
Lyfið Bricanyl hefur verið notað við samdráttum á meðgöngu um nokkurra ára skeið. Einungis er gripið til þess ef samdrættir byrja snemma í meðgöngu og leiða til breytinga á leghálsi sem þýtt gera yfirvofandi fæðingu. Þá er það notað til að slaka á legvöðvanum og kaupa sér þannig tíma fyrir fóstrið að þroskast nægilega til að geta lifað utan móðurkviðar. Lyfið veldur auknum hjartslætti og getur einnig valdið skjálfta eða titringi. Þessar aukaverkanir eru mest afgerandi fyrst eftir að notkun lyfsins hefst en eru einnig háðar þeim skömmtum sem notaðir eru. Áhrif lyfsins á fóstrið eru svipuð þeim sem móðirin finnur. Að öðru leiti er það ekki talið skaðlegt fóstrinu. Með þá sögu að baki sem þú hefur er þetta örugglega rétta meðferðin og betra fyrir fóstrið að vera með aðeins aukinn hjartslátt en að fæðast löngu fyrir tímann.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir