Hversu mikið aukast líkur á fyrirburafæðingu?

Spurning:
Heil og sæl.

Ég er komin 28 vikur á leið með tvíbura og fékk að vita á dögunum að ég væri með aukið legvatn og sérstakrar aðgæslu væri þörf. Hversu mikið aukast líkur á fyrirburafæðingu við þessar aðstæður og er eitthvað sem ég get gert til að laga ástandið (maginn er alveg gríðarlega þaninn og harður viðkomu)?

Svar:
Það er ekki neitt sem þú getur gert til að minnka legvatnið. Oft er ekkert vitað hvers vegna legvatnið tekur að vaxa óeðlilega. Stundum getur orsökin verið veirusýking en einnig getur orðið mikið legvatn ef kona er með sykursýki eða fóstrið veikt í nýrum. Einstöku sinnum gerist það í tvíburameðgöngu að fylgjurnar liggja saman og það verður ójöfn skipting blóðflæðis þannig að annar tvíburinn fær mikið blóð en hinn lítið. Þá er hætt við að legvatn þess tvíbura sem fær mikla blóðið aukist til muna. Tvíburameðgöngu fylgir alltaf aukin fyrirburaáhætta og ef mikið legvatn er til staðar eykst þessi áhætta enn frekar. Fáðu nánari útskýringar hjá þínum lækni á því hvað er að gerast. Hann gerir þær ráðstafanir sem þarf til að skoða orsakir þessa og meðhöndla eftir getu.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir