Misræmi í þörfum okkar þegar kemur að kynlífi

Spurning:

Sæll Sigtryggur.

Ég á við vandamál að glíma, sem þú hefur eflaust fengið margoft upp á borð
til þín í ýmsum útgáfum. ég hef enn enga lausn fundið, sama hversu
mikið ég hef hugsað, lesið og rætt við maka minn. Vandamálið er það að
þegar kemur að kynlífi þá er mikið misræmi í þörfum okkar hjónanna.

Ég vil
ekki líta svo á að ég eigi við kynkulda að stríða, því ég hef vissulega
löngun til mannsins míns og nýt kynlífs okkar mjög. Við lifum góðu og
gefandi kynlífi og reynum að brydda upp á nýjungum reglulega. En tvö
skipti í viku (meðaltal svo þú eigir auðveldara með að setja þig inn í
málið) fullnægja mínum þörfum… en ekki mannsins míns.

Stundum er ‘meira
fjör’ hjá okkur og stundum minna eins og gengur, en þegar skiptunum fækkar
þá fer manninum mínum að líða mjög illa, og mér um leið því samviskan
nagar. Við höfum rætt þetta mikið, ég held hann líti á þetta sem kynkulda
hjá mér en hann er þó mjög skilningsríkur og þrýstir ekki á mig. Það
breytir ekki því að öðru hverju fer allt í hnút hjá okkur. Um leið og
svona lægðartímabil (sem vara nú sjaldnast lengur en 2-3 vikur) koma, þá
finnst honum sem eitthvað hljóti að vera að; ég hafi ekki löngun til hans,
finnist hann ekki nógu ‘sexý’ og þar fram eftir götunum. Ég geri mér grein
fyrir því að þessi tímabil líða hjá, það hefur reynslan sýnt mér. Það
er eins og hann líti alltaf á þau sem vandamál; eitthvað óeðlilegt, í stað
þess að sýna smá þolinmæði á meðan lægðin gengur yfir. Þetta er farið að
valda því að ég tel dagana sem líða á milli og um leið og þeir fara yfir
3-4 þá fer mér að líða illa, og sú vanlíðan bitnar auðvitað á samlífinu sem
áhyggjurnar stafa af. Þannig þróast þetta í vítahring, sem okkur tekst þó
alltaf að yfirstíga en kemur alltaf aftur.

Ég veit að það er líklega ekki
hlaupið að því að ráðleggja fólki með svona mál án þess að geta spjallað
við báða aðila, en ég þigg með þökkum allar ráðleggingar sem þú kannt að
luma á handa okkur svo við getum slakað á og notið lífsins, með sínum hæðum
og lægðum.

Kær kveðja.

Svar:

Sæll.

Það er rétt hjá þér að þetta er ekki óalgengt vandamál.
Það sem kemur mér á óvart er að þú segir að þið hafið rætt þetta mikið, en ekki tekist að leysa vandann. Miðað við hvernig þú skrifar um málið á ég erfitt með að átta mig á því að ykkur hafi ekki tekist að vinna bug á þessu með því að ræða málið. Þú virðist átta þig vel á því hvað er að gerast, þið virðist njóta kynlífsins vel þegar það á sér stað og skv. því hvernig þú skrifar myndi ég giska á að samband ykkar sé að öðru leyti gott. Ef þetta heldur svona áfram er allt eins líklegt að þú hættir að njóta kynlífs vegna þess hve stressandi þetta er. Þú segist jú vera farin að telja dagana á milli samfara og stressast ef þeir verða fleiri en 3-4 og vítahringurinn sem þú talar um mun orsaka það að nautn þín af kynlífi dvínar.

Ástæða þess að þetta lagast ekki hlýtur að liggja í því hvernig þið talið saman og um hvað þið talið saman. Líklegast tel ég að þið séuð að ræða rangt vandamál.

Vandinn er sem sé ekki sá að hann fái það ekki nógu oft, heldur er vandinn sá að þið hafið mismunandi þarfir. Það er sá vandi sem þarf að leysa. Ef þið eruð bæði föst í því að vandinn sé sá að hann fái það ekki nógu oft munuð þið ekki leysa málið, því þá ert þú að reyna að leysa hans vanda á þinn kostnað og það verður þú aldrei sátt við.

Ég ráðlegg þér að setjast niður með manninum þínum og ræða vandann á sama hátt og þú gerir í bréfinu til mín, en út frá þeirri forsendu að vandinn er mismunandi þarfir ykkar. Að lokum skaltu koma með þá staðhæfingu að þetta sé vandamál, sem þið þurfið að leysa. Síðan getur þú valið milli tveggja leiða.

Leið A: Þú segir honum hvernig þú vilt leysa þetta og spyrð svo hvaða lausn hann sjái og gefur honum ekkert tækifæri á því að sleppa frá því að bera ábyrgð á því að koma með tillögu að lausn. Ef lausnir ykkar falla ekki saman verður þú að varpa fram spurningu um það hvernig þið ætlið að leysa vandamál, þar sem þið eruð ekki sammála um leiðir. Þannig verðið þið að vinna ykkur út úr þessu smátt og smátt og ekki víst að ein samræða dugi, en samræðurnar verða að vera samhangandi og leiða til niðurstöðu um það hvernig þið almennt leysið mál, þar sem þið eruð ekki sammála.

Leið B: Þú spyrð hann hvaða leið hann sjái til þess að leysa þetta. Ef hann spyr til baka verður þú að svara. Ef hann spyr ekki til baka, en reynir að forðast það að svara, verður þú að neyða hann til slíkrar ábyrgðar og fylgja seinni hluta leiðar A og koma svo með þína tillögu til lausnar. Ég mæli reyndar með leið A.

Leiði þetta ekki til viðunandi lausnar er eitthvað meira að í samskiptum ykkar, en lesa má út úr bréfi þínu.

Að lokum þetta: Það er ekkert sem bendir til þess að þú eigir við kynkulda að stríða. Það er allt sem bendir til þess að þið lifið góðu og gefandi kynlífi og það er allt sem bendir til þess að þú sért þó nokkuð ástfangin af manninum þínum. Það væri synd að skemma þetta með óleystum misskilningi á borð við þann sem þú ert að lýsa að ríki á milli ykkar hjóna.

Í von um gott gengi og góðar kveðjur,
Sigtryggur Jónsson, sálfræðingur