Næringarefni fyrir 37 ára sem vill verða ófrísk

Spurning:

Sæll.

Mig langar að biðja þig um að benda mér á hvað ég þarf að undirbúa mig í næringarefnum, ef ég stefni á að eignast barn á þessum aldri, 37 ára. Eitthvað hef ég heyrt orðið fólinsýra, en hvar fæ ég það? Ég er nýbúin að verða fyrir fósturláti, gengin á þriðja mánuð. Og næst vil ég vera vel undirbúin af næringarefnum. Hvað með hreyfingu á fyrstu mánuðum þegar maður er á fertugsaldri?

Með fyrirfram þökk.

Svar:

Sæl.

Sértu þú eins og flestar konur á þínum aldri, ertu eflaust í ágætu líkamlegu og andlegu jafnvægi. Þá ættir þú, svo fremi sem þú ert ekki á einhverjum sér-mataræðis-meðferðum, að vera birg af flestum næringarefnum.

Það er rétt hjá þér að fólacin, eða svokölluð fólinsýra getur dregið verulega úr líkum þess að barn fæðist með vaxtarlagsgalla (klofinn hrygg eða heilaleysi). Það nægir að taka eina 0,4 mg töflu af fólíni á dag og það fæst í öllum apótekum og jafnvel matvörubúðum (Fólin). Einnig er það í flestum fjölvítamíntöflum í þessu magni. Hreyfing er af hinu góða svo fremi sem hún fari ekki úr böndum. Þar gildir að það sem þér finnst skynsamlegt innan þinna þolmarka er í lagi, en að keyra sig áfram sértu ekki vön, er engum til gagns. Svo haltu áfram léttri leikfimi sértu vön. Það er alltaf fósturlátshætta í hverri meðgöngu og vex örlítð með aldri, en þú átt samt miku meiri möguleika að halda en missa.

Gangi þér vel,
Arnar Hauksson dr. med.