Nozinan fyrir ungt barn?

Spurning:
Ég vil fá að vita hvort að það er rétt að ávísa Nozinan 5mg. töflu x ein fyrir svefn hjá barni sem er eins árs og 7 mánaða. Barnið er tvíburi en hefur ekki sofið samfellt alla nóttina en er heilbrigt að öllu leyti. Foreldrarnir eru að vonum mjög þreyttir en móðirin er heima á daginn og er einnig með 11 ára og 9 ára börn. Það sem ég les um lyfið er að það er geðlyf og hefur heldur óskemmtilegar aukaverkanir þó ekki sé meira sagt þó sjaldgæfar séu. Einnig er tekið fram að ekki sé vitað um áhrif lyfsins á ungabörn ef móðirin er með barn á brjósti. Ég get ekki fundið eitt sem segir mér að það sé rétt eða ekki rétt að ávísa þessu lyfi fyrir þennan aldurshóp. Eru til betri ráð?

Svar:
Blessuð.
Nozinan hefur mikið verið notað sem svefnlyf hjá börnum og oft með góðum árangri. Hins vegar getur lyfið haft aukaverkanir í för með sér ef skömmtun lyfsins er ekki rétt. Notkun lyfja við svefntruflunum hjá börnum  eru þó oft síðasta úrræði sem notað er við slíkum vandamálum. Áður en gripið er til lyfja þarf að fara nákvæmlega í hvers eðlis vandamálið er og kanna vel hvort nokkur merki séu um sjúkdóm hjá barninu. Síðan þarf að ráðleggja foreldrum um aðgerðir til að koma svefninum til betri vegar og geta þær ráðleggingar verið margvíslegar. Notkun róandi lyfja (svefnlyfja) getur verið nauðsynleg ef ráðleggingarnar duga ekki.
 
Kveðja
Þórólfur