Of mikil karlhormón og erfitt að léttast?

Spurning:
Góðan daginn
Mig langar til að koma með fyrirspurn varðandi dóttur mín sem er 15 ára og er of þung. Fram að 7 ára var hún yfirleitt of létt en fór svo að fitna upp úr því án nokkrar breytingar á hennar högum. Fyrir 4 árum tókum við mataræðið allt til endurskoðunar sem var nú samt ekki slæmt en alltaf eitthvað sem má bæta. Núna í tæpt ár er hún í líkamsrækt 5 daga í viku og tekur mjög vel á þar, passar vel hvað hún lætur ofan í sig en léttist ekki um kíló. Fyrir rúmu ári fór hún til kvensjúkdómalæknis vegna óreglulegra blæðinga og mikla verkja sem tók blóðprufur og út úr því kom of mikill karlhormón og insúlínið í hærra kantinum, var sett á hormónapillu í kjölfar þess. Spurninginn er hvort þessi karlhormón er að gera það að sé svo erfitt að ná af sér kílóum eða ætti ég að leita annars læknis t.d. innkirtla eða efnaskiptafræðings.
Takk fyrir.

Svar:
Já mér sýnist að þessi óeðlilegu efnaskipti geti gert það erfiðara að ná af sér kílóunum þó að málið sé líklega flóknara en hækkun á karlhormóni einu sér. Það er ekki full vitað hvað kemur þessu ferli af stað en hugsanlegt að þarna sé um að ræða galla í insúlín-viðtakanum. Sjúklingurinn fær aukið viðnám gegn insúlíni og í framhaldi af því getur þróast skert sykurþol og jafnvel sykursýki. Þetta fer saman með offitu en hvort offitan er afleiðing brenglaðra efnaskipta eða orsökin fyrir þeim, því hefur ekki verið svarað. Í þessu tilviki þætti mér við hæfi að leita frekara álits efnaskiptalæknis ekki síst til að fylgjast með blóðsykri, blóðfitum og blóðþrýstingi sem allt eru fylgikvillar við offitu.

kv.
Arna Guðmundsdóttir, sérfræðingur
Hormóna- og efnaskiptasjúkdómar