Útferð á meðgöngu

Spurning:

Sæl Dagný!

Ég var að lesa svar þitt við spurninguni Tíðaverkir og doði í fótum á meðgöngu, og það sem mig vantaði upp á svarið var þátturinn um útferðina. Ég er kominn 26 vikur og hef frá 12. viku meðgöngu (þá blæddi í 2 daga) verið með mikla samdráttaverki og tíðaverki (er í áhættuhópi). En nú seinustu daga hef ég haft frekar mikla útferð sem er hvít. Er það eitthvað sem ég á að hafa áhyggjur af og fara í læknisskoðun?

Með fyrirfram þökk.

Svar:

Sæl.

Aukin útferð er eðlileg á meðgöngu og yfirleitt er hún saklaus ef hún er bara ljósgulleit eða hvít og veldur ekki kláða eða sviða. Ef þú hefur sögu um fyrirburafæðingu væri þó viturlegt að bera þetta undir lækni sem getur útilokað að þetta sé vegna bakteríusýkingar með því að taka strok frá leghálsi.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir