Vantar neðrihluta smágirnis – spurningar?

Spurning:
Góðan daginn
Fyrir 11 árum þurfti að taka úr mér neðrihluta smágirnis, (ileus) vegna samgróninga af völdum legslímuflakks (endometriosis). Síðustu 9 ár hef ég reglulega fengið betolvex sprautur en hef haft mikla liðverki, sérstaklega í fingrum og tám og verki í öllum sinafestingum. Mig langar til að vita hvort einhver hætta sé á að upptaka á steinefnum eða öðrum vítamínum fari úr skorðum? Ég þjáist reyndar líka af niðurgangi eftir aðgerðina og tók lengi imodium við því en nú tek ég questran. Fékk ristilbólgur og krampa meðan ég tók imodium en slepp við það á þessu lyfi, fæ aftur á móti mikið meiri vindgang af því og virkar ekki eins vel til að stemma hægðirnar, ég er hálfhrædd við eyðingu á fleiri vítamínum og tek því helst ekki nema eitt bréf á dag af questran, því annars verður vindgangur og uppþemba meiri. Hvort lyfið ætli sé betra?

Svar:
Sæl.

Þegar meira en 50 cm eru fjarlægðir af neðsta hluta smáþarma getur komið fram B12 vítamín skortur. Þú ert að fá B12 vítamín sprautur reglulega (Betolvex). Helstu næringarefnin (prótein, fitur kolvetni), vítamín, járn og steinefni eru tekin upp (frásoguð) í skeifugörn og öllum smáþörmum. Mér finnst ólíklegt að fjarlægt hafi verið það mikið af smáþörmum hjá þér (meira en 100 cm) að þú þurfir að hafa áhyggjur af vítamín eða steinefnaskorti. Það skaðar ekki fyrir þig að taka inn fjölvítamín, lýsi (A og D vítamín) og kalk.
Questran og Imodium eru bæði ágæt lyf við niðurgangi eftir svona aðgerð. Taktu það sem þú þolir betur og það sem virkar á þig. Questran getur þó valdið minnkaðri upptöku á fitu og fituleysanlegum vítamínum (A, D og K vítamínum), en þó ólíklegt í þeim litlu skömmtum sem þú tekur (eitt bréf).

Vona að þetta hjálpi þér.

Með bestu kveðju,

Sigurbjörn Birgisson, læknir
Sérfræðingur í meltingarsjúkdómum