Vill en vill ekki brjóstið?

Spurning:
Góðan daginn.
Mig langar að spyrja í sambandi við brjóstagjöf og veikindi. Litlan mín (9 mánaða) er búin að vera lasin í ca. 2 sólarhringa með háan hita og beinverkji (virus sagði læknirinn). Í þessum veikindum hefur hún allt í einu tekið upp á því að neita brjóstinu. Hún sækist eftir því, tekur það í munninn, en svo er eins og hún viti ekki hvað hún á að gera. Þetta er orðið svolítið vandamál, (ég mjólka í glas og hún drekkur það með bestu lyst) þar sem hugmyndin var ekki að venja af brjósti strax.
Fyrirfram takk fyrir svör, kær kv. G.

Svar:
Sæl og takk fyrir þessa fyrirspurn.
Það er um að gera að reyna áfram, þetta er örugglega tilfallandi og tengt veikindum hennar. Stundum eiga börn samt til að hætta sjálf á brjósti en þar sem að hún er lasin þá tel ég þetta frekar tengjast því án þess að vita nákvæmlega ástæðuna. Mjólkaðu þig áfram og gefðu henni mjólkina eins og hún vill fá hana en reyndu alltaf fyrst að láta hana drekka úr brjóstinu.
Vona að þetta gangi upp og hún taki brjóstið aftur.

Kær kveðja,
Ásthildur Gestsdóttir hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.