Mjólkursykursóþol (Laktósaóþol)

Efnisyfirlit

Hvað er mjólkursykursóþol?

Mjólkursykursóþol (laktósaóþol) er tilkomið vegna skorts á efnahvata í meltingarvegi sem brýtur niður mjólkursykur. Mjólkursykurinn bindur við sig vatn og fer ómeltur niður í ristil þar sem bakteríur nýta hann. Afleiðingin er vindgangur, magaverkir og niðurgangur. Þetta ástand er ekki hættulegt en getur valdið verulegum óþægindum og vanlíðan.

Helstu orsakir

Mjólkursykur (laktósi) er sykurtegund sem er að finna í mjólk. Til þess að hann geti frásogast út í blóðið þarf að brjóta hann niður í tvo hluta. Í slímhimnu smáþarmanna er ensím (laktasi) sem sér um þetta niðurbrot. Hjá þeim sem hafa mjólkursykursóþol er of lítið af þessu ensími eða það vantar alveg. Ef mjólkursykurinn frásogast ekki bindur hann við sig vatn. Það leiðir til niðurgangs. Mjólkursykurinn heldur áfram óbrotinn niður í ristil, þar sem þarmabakteríur nýta hann. Það leiðir til vindgangs og óróleika í kviðnum. Börn hafa almennt mikla hæfileika til þess að brjóta niður mjólkursykurinn. Þessi hæfileiki minnkar með árunum.

Hjá einstaklingum með mjólkursykursóþol er þessi hæfileiki skertur. Mismunandi er milli einstaklinga hversu mikil skerðingin er. Margir hafa eitthvað magn af ensíminu og þola því smávegis af mjólkursykri á meðan aðra skortir ensímið alveg og þola því engan mjólkursykur.

Áhættuþættir

Þeir  þættir sem geta haft áhrif á það að maður myndi óþol fyrir laktósa eru:

  • Hækkandi aldur. Laktósa óþol kemur yfirleitt fram með hækkandi aldri og er sjaldgæft hjá börnum.
  • Laktósa óþol er algengara meðal fólks af asískum, afrískum, spænskum  eða amerísk/indverskum uppruna.
  • Fyrirburar. Börn sem fæðast fyrir tímann get haft minna magn af laktasa vegna þess að smágirnið byrjar ekki að þroska frumurnar sem búa laktasann til fyrr en á síðasta hluta meðgöngu.
  • Sjúkdómar í smágirni. Vandamál í smágirni geta haft áhrif á framleiðslu laktasa ensímsins.

Í sumum tilfellum kemur tímabundið mjólkursykursóþol í kjölfar niðurgangs. Þetta stafar af því að slímhimna smáþarmanna hefur skaðast í kjölfar sjúkdómsins.

Einkenni

  • Uppþemba
  • Vindgangur
  • Ógleði
  • Krampakenndir kviðverkir
  • Niðurgangur

Greining

Oft dugar að byggja greiningu á sögu og upplýsingum einstaklingsins en annars er hægt að gera:

  • Mjólkursykursþolpróf (Lactose tolerance test): gerð er blóðsykursmæling fyrir og eftir að drukkið hefur verið glas með mjólkursykri uppleystum í vatni.
  • Öndunargreining (Hydrogen breath test): útöndunarloftið er rannsakað eftir neyslu mjólkursykurs.
  • Magaspeglun þar sem slímhimnusýni frá smáþörmunum er rannsakað.

Hvað er til ráða?

Fyrst og fremst er að  vera meðvitaður um ofangreind einkenni og takmarka þá neyslu á mjólkurvörum. Eins og áður kemur fram þola sumir að borða smávegis af mjólkursykri á meðan aðrir þola engann mjólkursykur. Töluvert úrval er af laktósafríum mjólkurvörum sem er þá skynsamlegt að velja umfram þær venjulegu. Eins eru til töflur sem innihalda laktasa ensím sem geta komið að gagni.

Hvað þarf að hafa í huga ?

Þegar dregið er úr neyslu á mjókurmat er hætta á að við fáum ekki nægilegt kalk. Þess vegna þarf að gæta  þess að fá kalk úr öðrum mat eins og brokkolí og öðru grænu káli, soja eða rísmjólk, appelsínum eða möndlum, brasilíuhnetum eða þurrkuðum baunum. Eins eru til kalkbætt matvæli  og kalk í töfluformi.

Um leið er mikilvægt að tryggja að fá nægilegt D vítamín. Fæstir fá nægilegt D vítamín úr fæðunni en ennþá síður ef mjólkurmatur er tekinn út.

Greinin birtist fyrst 30.mars 2016 en var uppfærð af Guðrúnu Gyðu Hauksdóttur hjúkrunarfræðingi og endurbirt

 

 

Höfundur greinar