Flest ung börn taka skapofsaköst. Skapofsaköst þekkjast meðal annars af háum grátri/öskri, tárum, lítilli/engri stjórn á útlimum (barnið dettur eða leggst í gólfið og baðar út útlimum) og getuleysi til hlustunar og tjáningar með orðum. Börn eiga það til að lemja frá sér, klóra eða klípa þegar foreldri reynir að nálgast barnið. Ýmislegt getur komið skapofsakasti af stað, til dæmis að fá ekki að fara út í sparískóm eða þegar þau eru sett í bílstól. Áætlað hefur verið að um 17% skapofsakasta verði vegna matar og máltíða, um 11% verði þegar börn eru fest í bíl- eða barnastól og önnur 11% þegar hreyfingar barnsins eru takmarkaðar þegar verið er að klæða þau í föt.
Hvers vegna taka börn skapofsaköst?
Skapofsaköst eru ekki frekja. Skapofsaköst verða þegar eitt eða fleiri af þrem viðvörunarkerfum gamla heila eru vakin. Viðvörunarkerfin þrjú eru heift, ótti og aðskilanaðarkvíði. Þegar eitthvert þessara kerfa vaknar streyma ákveðin hormón um heila barnsins (sér í lagi streitu hormónið kortisól). Heili ungra barna er ekki fullmótaður og í hann vantar mikinn fjölda tenginga á milli nýja og gamla heila. Þegar við sem fullorðið fólk upplifum heift, ótta eða aðskilnaðarkvíða getum við notað nýja heila okkar til að róa okkur niður. Það er að segja, ef við erum sjálf með góðar tengingar á milli nýja og gamla heila. Börn hafa ekki þessar tengingar og hafa því ekki líffræðilega getu til að stoppa skapofsaköst með góðu móti. Steituhormón verða til þess að það lokast fyrir flæði hormóna sem lætur börnunum líða vel (gerist líka hjá fullorðnum) en með aðstoð umönnunaraðila getur opnað fyrir flæðið aftur og dregið úr streituhormónum.
Viðbrögð foreldra
Skapofsaköst krefjast viðbragða foreldra. Foreldri þarf að mæta sársauka barnsins síns og veita því samkennd og skilning. Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:
- Haltu barninu blíðlega. Það virkar vel á sum börn en mikilvægt er að foreldrið sé sjálft slakt og rólegt. Þegar líkami barnsins er nálægt slökum líkama umönnunaraðila slaknar gjarnan á yfirspenntum líkama barnsins. Jafnvægi kemst á kerfið og líkaminn fer aftur að framleiða oxytósin og ópíóda (vellíðunarhormón). Gott er að tala í rólegum tón við barnið, til dæmis að endurtaka ákveðin orð, svo sem “allt í lagi” eða “svona, svona, svona”. Ef barnið berst um, slær eða bítur þarf að halda á barninu þannig að það skaði hvorki sjálft sig né þig.
- Sum börn vilja alls ekki láta halda á sér á meðan þau eru í skapofsakasti. Þá er gott að sitja nálægt barninu svo að barnið finni að foreldrið sé til staðar og að tilfinningar þess kalli ekki á höfnun frá foreldrinu.
- Forðist “tíme out” aðferðina þegar barnið er í skapofsakasti. Barninu líður virkilega illa og það þarf á nærveru þinni að halda. Ef að foreldri lætur sig hverfa eða lokar barn inni til að láta barnið er látið “gráta úr sér” er ekki þar með sagt að barnið læri sjálfstjórn. Barnið getur róast en það er ekki víst að því líði betur. Barnið lærir að erfiðar tilfinningar eigi að bera í hljóði, þær eigi að bæla niður frekar en að vinna úr þeim. Fæstir myndu ganga út frá vini eða maka sem gréti af vanlíðan – það sama ætti að gilda um börn.
- Í sumum tilfellum er gott að beina athyglinni annað en það á alls ekki alltaf við. Þegar athyglinni er beint annað er gott að sýna barninu eitthvað sem dreifir huga þess. Þannig er oft hægt að kveikja á “leitarkerfinu” í lægri heila. Leitarkerfið er eitt hinna sex grunntilfinningakerfa líkamans. Hin grunnkerfin fimm eru þjáning/nauð (distress), umhyggja og leikur auk viðvörunarkerfanna þriggja: heift, ótta og aðskilnaðarkvíða.
- Það á alls ekki alltaf við að beina athyglinni annað. Oft er betra að leyfa barninu að gráta þar til það róast (í nærveru foreldris) og ræða við barnið eftir á. Hversu mikið hægt er að ræða við barnið ræðst m.a. af aldri barnsins. Mörgum þykir reynast vel að túlka fyrir barnið hvað setti ofsann af stað, hvernig barninu leið, hvernig barnið brást við tilfinningunum, hvað foreldrið gerði og hvernig staðan lagaðist.
- Bjóddu upp á val á rólegan og yfirvegaðan hátt. Það á til dæmis við þegar barn virðist stefna inn í skapofsakast út af fatavali foreldra. Gott er að bjóða barninu að velja á milli bláu peysunnar eða þeirrar rauðu.
- Minntu þig á að barnið er ekki með frekju heldur er um að ræða líffræðilegt ferli sem barnið ræður ekki við. Barnið er í fyrstu að reyna að koma sínu á framfæri en missir stjórn á tilfinningum sínum vegna hormóna og skorts á taugatengingum í heila.
Ekki skamma barnið vegna skapofsans
Þegar við hjálpum börnum með tilfinningar sínar verða til tengingar á milli nýja og gamla heila og börnin læra með tímanum gagnlegar leiðir til að takast á við yfirþyrmandi tilfinningar. Ef við hjálpum börnum ekki missum við af góðu tækifæri til að hjálpa til við að hafa jákvæð áhrif á mótun heila þeirra. Það er einnig mikilvægt fyrir barn að upplifa að foreldri þess hefur getu til að aðstoða það þegar það þarf helst á að halda. Foreldrið sýnir barninu ást og öryggi með því að vera með því í að halda erfiðleika þess út. Þegar foreldrar verða reiðir vegna tilfinningalegra viðbragða barnsins getur barnið lent í mikilli klemmu. Það óttast viðbrögð foreldrisins og lærir að bæla tilfinningar sínar eða viðbrögð við þeim. Ef barn fær ekki aðstoð með stórar tilfinningar gæti orðið til skortur af taugatengingum í heila sem stuðla að sjálfssefjun. Það getur haft hamlandi áhrif á tilfinningastjórnun til lengri tíma.
Það er mikilvægt að taka mark á skapofsaköstum barna og afgreiða þau ekki sem frekju. Þau eru eðlilegur og nauðsynlegur þáttur í þroska þeirra. Ef börnin fá viðeigandi stuðning eru þau mun líklegri til að læra að ráða við tilfinningar sínar sjálf og geta þar með öðlast hærri tilfinningagreind en ella.
Heimild:
Margot Sunderland. (2006). The Science of Parenting; How today´s brain research can help you raise happy, emotionally balanced children. London: DK Publishing.
Greinin birtist fyrst á heimasíðunni foreldrahandbókin.is þann 18. febrúar 2013. Greinin hefur verið yfirfarin og henni breytt lítillega og er fengin af heimasíðunni fyrstuarin.is og birt með góðfúslegu leyfi.
Höfundur greinar
Rakel Rán Sigurbjörnsdóttir MA fjölskyldumeðferð
Allar færslur höfundar